2012

Monday, May 26, 2008

Opinberun!

Þegar á móti blæs eru það þeir staðföstu sem ganga frammi fyrir skjöldu og taka vindinn í fangið. Það blæs ekki byrlega hjá mínum mönnum í Njarðvík þessa dagana og nú þegar ég get sett allt hlutleysi til hliðar við starfslok mín hjá Víkurfréttum er ég hvergi banginn við að viðurkenna að ég sé Njarðvíkingur í húð og hár. Engum blöðum þarf um það að fletta að gengi körfuboltaliðsins var ekki eins og til var ætlast í vetur og um síðustu helgi lá fótboltalið UMFN 1-5 gegn Fjarðabyggð á Njarðvíkurvelli. Staðan er s.s. miður góð um þessar mundir hjá boltadeildum UMFN en við getum borið höfuð hátt í sundinu þar sem Erla Dögg er að gera magnaða hluti í lauginni.

Það er ekkert annað í boði en að breyta skeifunni í bros og vísir að skemmtilegri stuðningsmannasveit fótboltans gefur góð fyrirheit. Kapparnir mæta á Njarðvíkurleiki í skotapilsum með trommur og hvetja allan tímann, sannir Njarðvíkingar. Gaman væri ef körfuknattleiksáhugamenn sem venja komur sínar í Ljónagryfjuna myndu taka uppátæki piltanna fagnandi og fara að hafa gaman af hlutunum.


Áfram Njarðvík!