Frændaskaup
Sem ungur drengur á Ólafsfirði sat ég inni á hársnyrtistofu og var að láta klippa mig því framundan væri sko stuð. Ættarmót var á næstu grösum og ég skyldi sko vera flottur á því þegar ég hitti allt frændfólkið mitt. Nú! Verandi á Ólafsfirði þá þekkti ég alla inni á hársnyrtistofunni og allir þekktu mig. Það var því spjallað um daginn og veginn og það barst í tal að ég væri á leið suður með sjó. Vitaskuld vildu allir fá að vita hvert erindið væri því það þekkist víst ekki hjá Norðlendingum að fara erindisleysu á mölina.
Eitthvað var spurningin um erindið sjálft að flækjast fyrir mér og eftir nokkrar vangaveltur sagði ég að ég væri að fara suður á frændaskaup. Ég man ekki fyrir mitt litla líf hver viðbrögðin voru inni á stofunni en móðir mín ástkær hefur í seinni tíð sagt mér að það sé enn verið að hlægja að þessu orðskrípi mínu á Ólafsfirði. Nú er svo í pottinn búið hjá ætt föður míns að það er ekki til neitt sem heitir ættarmót. Orðið frændaskaup hefur haft betur allar götur síðan árið 1986 þegar það fyrst leit dagsins ljós.
Hvað eflingu og upphefði íslenskrar tungu finnst mér ég hafa staðið vaktina og hef staðið hana allar götur síðan þennan örlagaríka dag á hársnyrtistofunni á Ólafsfirði. Þess má svo geta að ég er akkúrat á leiðinni á frændaskaup um helgina.
JB