2012

Wednesday, June 15, 2011

Lennie-isminn varð U21 árs liðinu að falli


Útlitið er svart hjá okkar mönnum í U21 árs landsliðinu á EM í Danmörku. Þessum öflugu strákum er vorkunn enda hafa síðustu mánuðir hérlendis verið undirlagðir af þátttöku liðsins á mótinu og oftar en ekki var liðið kallað ,,litlu strákarnir okkar.“

Tveir leikir, ekkert mark og Ísland hefur fengið á sig fjögur mörk. Framundan er hið ómögulega, að vinna Dani með þriggja marka mun. U21 árs landsliðinu er vorkunn því óeðlilegar væntingar til A-landsliðsins og þau vonbrigði sem jafnan fylgja því að horfa á það lið leika knattspyrnu gerðu það að verkum að þjóðin skaut U21 árs liðinu upp á sinn hæsta stall.

Fallið var hátt, lendingin ekki endanlega komin en hún verður vafalítið hörð. Ungir menn takast þá á við vonbrigði heillar þjóðar sem batt óraunhæfar vonir við getu þeirra. Vera þeirra á mótinu er stærsti sigurinn, vissulega vildu allir sjá betri árangur en mistökin lágu hjá landanum og aðallega sterkum styrktaraðilum U21 árs liðsins og fjölmiðlum.

Við verðum að hætta þessum Lennie-isma. Lennie, persóna í bókinni Of Mice and Men, átti það til að kæfa fólk... til bana. Af ástríðunni einni saman og án vitneskju um eigin styrk batt hann enda á nokkur líf, ómeðvitaður um afleiðingar gjörða sinna.

Fjölmiðlar, stærsta og gagnrýnislausasta klappstýra liðsins, og styrktaraðilar þess blésu væntingarnar upp úr öllu valdi. Ísland í fyrsta sinn í karlaflokki á stórmóti, litlu strákarnir okkar, Pétur Marteins og aðrar valdar kempur að reyna að komast í liðið, bankaleg auglýsingaherferð skömmu fyrir mót með þyrluskotnum myndbrotum og Íslandsvæðing í nærumhverfi leikvangsins þar sem Ísland leikur í Danmörku í boði Valitor eða Borgunar eða hvað það nú var. Þetta og fleira var hluti af uppblæstrinum á liðinu svo ekki sé nú minnst á Vormenn Íslands hjá RÚV.

Við fórum langt fram úr okkur, við vorum orðin kolrangstæð í umfjöllun okkar um liðið einhvern tíman um síðustu jól. Væntingar frá Íslandi inn á jafn sterkt mót og strákarnir eru staddir á eiga að vera við algert frostmark, við getum ekkert leyft okkur að vera með höfuðið í skýjunum. Það er óraunhæft og ósmekklegt að leggja þessi þyngsli á 21 árs gamla íþróttamenn og yngri.

Styðjum strákana til sigurs í stað þess að reisa skýjaborgir. Fjölmiðlar ættu að gyrða í buxurnar í þessum efnum og gerast málefnanlegri í stað þess ganga með grasið í skónum á eftir þessum ungu og efnilegu Vormönnum Íslands.

Íslands þúsund ár
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.

JB

Verkfall?

Flugvirkjarnir eru að boða verkfall þann 20. júní. Þá vill einmitt svo vel til að ÍF heldur af stað til Grikklands með rúmlega 50 manna hóp til þess að taka þátt í Alþjóðaleikum Special Olympics.

Sjáum hvað setur.

JB