Róleg áramót

Nýja árið gekk stórslysalaust í garð hjá okkur en við Hilma héldum til í Lyngmóanum hjá mömmu og pabba. Ég tók gleði mína að nýju eftir jólin þar sem bæði foreldrar mínir og tengdaforeldrar báru fram lambakjöt á aðfangadag. Verst þykir mér nú að vera að setja eitthvað út á jólamatinn yfir höfuð en lambakjöt er fjarri því eins gott og kalkúnn eða hamborgarhryggurinn. Á gamlárskvöld voru kalkúnn og Londonlamb í boði í Lyngmóanum svo ég var kampakátur.
Sprengjuregn landsmanna fór ekki framhjá okkur enda sást vel upp í Vallarhverfið þar sem villtustu sprengjumenn búa. Tilkomumikil sjón en hún Hilma mín lét sér nægja að vera með þessi blys og já... hún sendi einnig upp eina nokkuð feita bombu.
Kvöldið enduðum við í heimahúsi í Keflavík og vorum að til að ganga sjö um morguninn. Ótrúlegt en satt voru timburmennirnir víðsfjarri á nýársdag enda við skötuhjúin orðin frekar stillt í drykkjunni. Verðum að bæta úr því.
Gleðilegt ár,
Jón Björn og Hilma