Framleiðum rafmagnsbíla!

Hið furðulega er að þessi mynd og endi hennar fékk mig umsvifalaust til þess að hugsa um ástandið hér á Íslandi og hvað við gætum gert. Við framleiðum fátt annað en fisk sem telst okkur til verulegra tekna því nú hefur það sýnt sig þegar bankarnir eru hættir að styðja íþróttaliðin og gefa kirkjum orgel að þeir voru ekkert annað en barn sem kemst í deigið þegar mamman er að baka, óhjákvæmilegur magaverkur fylgdi í kjölfarið. Pabbi (yfirvöld) ráku svo náðarhöggið með því að loka eldhúsinu!
Í umræðunni síðustu daga hefur þeirri spurningu verið varpað fram um hvað Íslendingar gætu gert í þessu ástandi og að nú væri tækifæri í kreppunni að hlúa vel að sprotafyrirtækjum og hér er ein hugmynd í þann pott sem tengist myndinni hans Gore. Það sló mig að í lok myndar eru áhorfendur hvattir til að kaupa ,,tvinn bíla" sem ganga á rafmagni og bensíni eða bensíni og vetni eða hvernig nú sem þeir virka. Eina alvöru lausnin í þessu máli er framleiðsla á rafmagnsbílum.
Við Íslendingar höfum barið okkur á brjósti og hömpum mannauðnum í hvívetna, hér heima sem og utan landsteinanna. Hvar er þessi mannauður nú? Er ekki tímabært að allir heilarnir setjist nú niður og skapi vöru í höndum okkar sem heimsbyggðin öll gæti notið góðs af? Rafmagnsbílarnir eru klárlega svarið!
Hversu flókið getur það verið að smíða einn rafmagnsbíl? Var ekki einn snjall kauði að hanna kafbát sem mælir hrognamagn í fiskum eða eitthvað þvíumlíkt? Væri ekki betra að taka þessa vísindakeppni upp í HÍ og hætta að láta ósofna verkfræðinema keppast við að koma banana í gegnum pústurör með títiprjóna og sláttuvélamótor að vopni? Er kröftum okkar ekki betur varið í að skapa vöru sem selst vel og er svo sannarlega náttúruvæn? Auðvitað er svarið já en bölsýnismenn segja að tími rafmagnsbíla sé liðinn því olíufyrirtækin hafi séð til þess að þeir kæumst ekki á markað!
Ísland á ekki olíu og þau réttindi sem gætu hugsanlega í framtíðinni veitt okkur aðgang að olíu eru sjálf um sig fallin í skuldafeni örfárra manna og vankunnáttu okkar sem þjóðar við að bora eftir olíu og fullvinna hana fyrir heimsmarkað.
Við þekkjum rafmagn og jarðhita, hvernig væri að nýta þá þekkingu og búa til milljónir rafmangsbíla? Einhver framleiðir plast hér á Íslandi og við gætum örugglega framleitt gúmmí, yfirvöld myndu bara standa straum af þeim efniskostnaði frá öðrum löndum sem fellur til við gerð rafmangsbíla á meðan heilarnir sætu yfir frumgerðinni af bílnum.
Þetta er kjörið tækifæri fyrir okkur sem þjóð til þess að rétta við þjóðarskútuna og ég sem kann vart að setja inn vírusvörn í tölvuna mína tel að þetta sé afar einfalt.
JBÓ