Framleiðum rafmagnsbíla!

Hið furðulega er að þessi mynd og endi hennar fékk mig umsvifalaust til þess að hugsa um ástandið hér á Íslandi og hvað við gætum gert. Við framleiðum fátt annað en fisk sem telst okkur til verulegra tekna því nú hefur það sýnt sig þegar bankarnir eru hættir að styðja íþróttaliðin og gefa kirkjum orgel að þeir voru ekkert annað en barn sem kemst í deigið þegar mamman er að baka, óhjákvæmilegur magaverkur fylgdi í kjölfarið. Pabbi (yfirvöld) ráku svo náðarhöggið með því að loka eldhúsinu!
Í umræðunni síðustu daga hefur þeirri spurningu verið varpað fram um hvað Íslendingar gætu gert í þessu ástandi og að nú væri tækifæri í kreppunni að hlúa vel að sprotafyrirtækjum og hér er ein hugmynd í þann pott sem tengist myndinni hans Gore. Það sló mig að í lok myndar eru áhorfendur hvattir til að kaupa ,,tvinn bíla" sem ganga á rafmagni og bensíni eða bensíni og vetni eða hvernig nú sem þeir virka. Eina alvöru lausnin í þessu máli er framleiðsla á rafmagnsbílum.
Við Íslendingar höfum barið okkur á brjósti og hömpum mannauðnum í hvívetna, hér heima sem og utan landsteinanna. Hvar er þessi mannauður nú? Er ekki tímabært að allir heilarnir setjist nú niður og skapi vöru í höndum okkar sem heimsbyggðin öll gæti notið góðs af? Rafmagnsbílarnir eru klárlega svarið!
Hversu flókið getur það verið að smíða einn rafmagnsbíl? Var ekki einn snjall kauði að hanna kafbát sem mælir hrognamagn í fiskum eða eitthvað þvíumlíkt? Væri ekki betra að taka þessa vísindakeppni upp í HÍ og hætta að láta ósofna verkfræðinema keppast við að koma banana í gegnum pústurör með títiprjóna og sláttuvélamótor að vopni? Er kröftum okkar ekki betur varið í að skapa vöru sem selst vel og er svo sannarlega náttúruvæn? Auðvitað er svarið já en bölsýnismenn segja að tími rafmagnsbíla sé liðinn því olíufyrirtækin hafi séð til þess að þeir kæumst ekki á markað!
Ísland á ekki olíu og þau réttindi sem gætu hugsanlega í framtíðinni veitt okkur aðgang að olíu eru sjálf um sig fallin í skuldafeni örfárra manna og vankunnáttu okkar sem þjóðar við að bora eftir olíu og fullvinna hana fyrir heimsmarkað.
Við þekkjum rafmagn og jarðhita, hvernig væri að nýta þá þekkingu og búa til milljónir rafmangsbíla? Einhver framleiðir plast hér á Íslandi og við gætum örugglega framleitt gúmmí, yfirvöld myndu bara standa straum af þeim efniskostnaði frá öðrum löndum sem fellur til við gerð rafmangsbíla á meðan heilarnir sætu yfir frumgerðinni af bílnum.
Þetta er kjörið tækifæri fyrir okkur sem þjóð til þess að rétta við þjóðarskútuna og ég sem kann vart að setja inn vírusvörn í tölvuna mína tel að þetta sé afar einfalt.
JBÓ
6 Comments:
Þetta ætti ekki að vera neitt mál, fyrir utan það að umferðin yrði sennilega hægari og krúttlegri;)
ásdís
Já það var laglegt JónBjörn - flottur pistill og ég styð hann heilshugar!
-Mæli með því að þú sendir hann áfram þar sem alþjóð fær að njóta hans, í moggann t.d.
Kv. Sirrý
Góður pistill Jón Björn. Í dag eru til nokkuð margir frambærilegir rafbílar, ég keyrði til að mynda einn slíkan framleiddan af Peugeot um aldamótin, sælla minninga. Þessir bílar eru farnir að ná 350-400km á hleðslunni og hámarkshraði þeirra er langt umfram það sem lög leyfa hér. Með framleiðslu á þeim værum við að einhverju leyti að finna upp hjólið uppá nýtt hvað það varðar. Þú minnist á annan punkt í pistlinum sem snýr að þekkingu okkar á rafmagni og jarðhita. Það er mikil orka hér og tímabært að endurhugsa nýtingu okkar á henni. Í ljósi veikrar krónu og minnkandi kaupmáttar þurfum við að hugsa inn á við og er pistill þinn hluti af því ferli. Ef ákveðið væri að hætta að selja bíla sem ganga fyrir olíu værum við líklega komin með bílaflota innan skamms sem gengur aðallega fyrir orku sem framleidd er hér á landi. Verkfræðinemarnir færu svo í að finna lausn fyrir skipaflotann. Matvæli eru annar kostnaðarliður sem mun stækka í ljósi aðstæðna. Of stór hluti matvælaneyslu okkar er fluttur um hálfan hnöttinn áður en hann ratar ofan í okkur. Það mætti setja raunverulega rannsókn í gang á því hvort mögulegt sé að framleiða allan þann mat á Íslandi sem við neytum. Til dæmis eru tilraunaverkefni í gangi í stórborgum þar sem matvælaframleiðsla á sér stað í háhýsum. Það er vissulega orkufrekari og dýrari framleiðsluaðferð en að rækta matinn við kjöraðstæður á hverju svæði fyrir sig en eftir flutninginn þaðan kostar varan nokkurn veginn það sama fyrir neytandann. Þetta dæmi er frá New York og þar er orkukostnaðurinn meiri en hér og flutningskostnaðurinn minni, þar með ætti þetta að vera enn hagkvæmara hér á landi. Varan er þar af leiðandi framleidd eins nálægt markaðssvæðinu og mögulegt er. Matvæli (8%) og olía (12%) eru um 20% af innflutningi okkar á þessu ári og fer þetta hlutfall hækkandi í ljósi aðstæðna. Þetta eru kannski kjánalegar hugmyndir en mér finnst að það mætti minnka fókusinn á að nýta auðlindir okkar til að auka útflutning, í stað þess mætti nýta auðlindina til verðmætasköpunnar innanlands með nýtingu hennar og þar með minnka innflutning. Þannig værum við auk þess að minnka þörf okkar á innfluttri orku og matvælum.
B
Vel sagt meistari B en það er mikil þörf á gjaldeyristekjum, ekki satt? Það er þá annað hvort að við flytjum út eitthvað sem heimsbyggðin er sólgin í eða flytja heimsbyggðina hingað í formi ferðamanna.
JB
Jú, það er rétt hjá þér Jón. Þörfin fyrir gjaldeyri er og verður mikil en eins og staðan er nú þá ætti fiskurinn og álið að koma með nóg af gjaldeyri inn í landið (svo lengi sem hann skilar sér). Reyndar er vöruskiptaafgangurinn sorglega lítill í ljósi þess að krónan hefur aldrei verið veikari en það er sökum þess að okkar helstu útflutningsvörur hafa lækkað mikið í verði. Ferðamenn munu koma svo lengi sem við höfum okkar veiku krónu. Það sem að kemur til með að drepa okkur er það útflæði gjaldeyris sem á sér stað vegna erlendra skuldbindinga. Vaxtagreiðslurnar einar og sér kalla á gífurlegan gjaldeyri. Það þarf að gera eitthvað róttækt á þeim vígstöðum. Þannig að, einbeita okkur að verðmætasköpun og uppbyggingu heima fyrir með nýtingu auðlinda, gjaldeyrir á að koma inn í kerfið í gegnum útflutningsgreinar og ferðamenn og svo þarf að gera drastíska hluti með erlendar skuldbindingar okkar.
BB
http://www.vb.is/frettir/hefja-lodrettan-landbunad/152637/
Kv. BB
Post a Comment
<< Home