Við höfum fest okkur íbúð, já, nú er það komið í höfn. Við Hilma munum flytjast í Skipholtið í Reykjavík í maí á þessu ári. Magnað! Íbúðin er alls 113 m2 með bílskúr og geymslu og beint á móti American Style. Sem betur fer er hún á fjórðu hæð annars hefði verið hætt á því að undirritaður myndi endanlega hverfa í skyndibitasukkið.
Útsýnið er frábært og núna á mánudag fengum við að vita að við stóðumst greiðslumatið. Það á víst að vera lítið mál en þetta var okkar fyrsta greiðslumat... alveg blaut á bak við eyrun : )
Því miður eigum við ekki mynd af blokinni til að sýna ykkur því hún er jú farin af fasteignavefjunum… þar sem við keyptum hana. Í staðinn skal ég lýsa henni í grófum dráttum. Stórar og góðar svalir, grillsvalir. Old fashion eldhúsinnrétting sem eflaust hefur séð sitt magn af sviðum og slátri. Piparmyntuflísar á baðinu, lögum það síðar. Tvö svefnherbergi, nóttin í aukaherberginu fer á 5.500 og svo 7500 með morgunmat í bólið. Stofan er stór með einhverjum panel á stærsta veggnum, spurning um að hrauna þann vegg og búa til klifurgrind. Skápur í forstofu, mest allt parket á gólfi og fataherbergi gengt svefnherbergjunum. Útsýni í átt að Hallgrímskirkju frá svölum og úr eldhúsi og svefnhverbergjum getum við næstum því séð hvort það sé djamm á Broadway.
Annað skemmtilegt sem ég verð að segja ykkur frá. Um síðustu helgi fórum við Hilma í 25 ára afmæli hjá Agnari frænda hennar. Það var grímubúningateiti. Skylda að allir myndu mæta í grímubúningum. Hilma fór sem gömul kona og ég fór sem…Guðmundur í Byrginu. Fékk verðlaun fyrir flottasta búninginn. Var í gúmmítúttum, gallabuxum, vinnuskyrtu, leðurjakka, með kúrekahatt og svo verslaði ég forláta ,,mullet-hárkollu” í Hókus Pókus og fékk fyrir vikið fyrstu verðlaun. Ég var beðinn um að fara með ræðu við útnefninguna, hún var stutt, einhvern veginn svona: ,,Það er svo langt síðan ég hef unnið eitthvað svo ég ætla að tileinka þennan sigur sjálfum mér.” Þar hafið þið það.
Þangað til næst,
Jón Björn