2012

Wednesday, February 21, 2007

Fréttamyndir af okkur

Þá koma loksins nokkrar myndir frá því sem hefur á daga okkar drifið að undanförnu. Ásdís og Sverrir litu í heimsókn, Rut átti afmæli, Hilma fór á þorrablótið hjá FH, við fórum svo í búningapartý og ég sem Gummi í Byrginu og að lokum sjáum við í Skipholt 51, nýja heimilið okkar og þangað flytjum við inn í maí byrjun.

Ég verð nú að taka það fram að ég var miklu flottari en Hilma enda fékk ég verðlaun fyrir vikið, flottasti búningurinn. Ég er bara svo asskoti montinn af þessu því það er svo langt síðan ég vann eitthvað. Hilma fór sem gömul frú og var glæsilegt en ég varpaði stórum skugga...verst hvað hárið sést illa á myndinni.

Lifið heil, þangaði til næst.
Jón Björn















Endurkoma í sterkara lagi

Tvíhöfðinn Sigurjón Kjartansson og Jón Gnarr eru komnir aftur með glæsibrag og eru nú með þætti hjá RÚV um helgar. Þeir félagar fara gjörsamlega hamförum í þáttunum og þá sér í lagi í lið sem kallaður er símatími. Í símatímunum hringja inn hinar ýmsu manneskjur og ræða við Sigurjón þáttarstjórnanda og hann sem slíkur hefur ómælda þolinmæði fyrir þjóðarsálinni sem er á hinum enda línunnar. Jón Gnarr er vitaskuld einstakur listamaður þegar kemur að því að fanga ,,mugginn” í Íslendingum, þ.e. þessa einstaklinga sem berjast hart fyrir því að koma sinni skoðun að í íslenskum fjölmiðlum og hafa sjaldnast eða aldrei neitt að segja.

Gamall maður ræðir um kvenlega fætur afa sína, einn hringjandi segist safna naflaló og þá er íslenskum fjölmiðlum jafnan í þessum símatíma kennt um það sem miður fer í þjóðfélaginu. Þetta er einstakt efni frá þeim félögum og hafa þeir aldrei verið betri en einmitt nú:

www.ruv.is/tvihofdi

Þakka þeim Sigurjóni og Jóni kærlega fyrir að færa mér að nýju magavöðvana.

Jón Björn

Tuesday, February 13, 2007

Íbúðakaup og búningaverðlaun

Við höfum fest okkur íbúð, já, nú er það komið í höfn. Við Hilma munum flytjast í Skipholtið í Reykjavík í maí á þessu ári. Magnað! Íbúðin er alls 113 m2 með bílskúr og geymslu og beint á móti American Style. Sem betur fer er hún á fjórðu hæð annars hefði verið hætt á því að undirritaður myndi endanlega hverfa í skyndibitasukkið.

Útsýnið er frábært og núna á mánudag fengum við að vita að við stóðumst greiðslumatið. Það á víst að vera lítið mál en þetta var okkar fyrsta greiðslumat... alveg blaut á bak við eyrun : )

Því miður eigum við ekki mynd af blokinni til að sýna ykkur því hún er jú farin af fasteignavefjunum… þar sem við keyptum hana. Í staðinn skal ég lýsa henni í grófum dráttum. Stórar og góðar svalir, grillsvalir. Old fashion eldhúsinnrétting sem eflaust hefur séð sitt magn af sviðum og slátri. Piparmyntuflísar á baðinu, lögum það síðar. Tvö svefnherbergi, nóttin í aukaherberginu fer á 5.500 og svo 7500 með morgunmat í bólið. Stofan er stór með einhverjum panel á stærsta veggnum, spurning um að hrauna þann vegg og búa til klifurgrind. Skápur í forstofu, mest allt parket á gólfi og fataherbergi gengt svefnherbergjunum. Útsýni í átt að Hallgrímskirkju frá svölum og úr eldhúsi og svefnhverbergjum getum við næstum því séð hvort það sé djamm á Broadway.

Annað skemmtilegt sem ég verð að segja ykkur frá. Um síðustu helgi fórum við Hilma í 25 ára afmæli hjá Agnari frænda hennar. Það var grímubúningateiti. Skylda að allir myndu mæta í grímubúningum. Hilma fór sem gömul kona og ég fór sem…Guðmundur í Byrginu. Fékk verðlaun fyrir flottasta búninginn. Var í gúmmítúttum, gallabuxum, vinnuskyrtu, leðurjakka, með kúrekahatt og svo verslaði ég forláta ,,mullet-hárkollu” í Hókus Pókus og fékk fyrir vikið fyrstu verðlaun. Ég var beðinn um að fara með ræðu við útnefninguna, hún var stutt, einhvern veginn svona: ,,Það er svo langt síðan ég hef unnið eitthvað svo ég ætla að tileinka þennan sigur sjálfum mér.” Þar hafið þið það.

Þangað til næst,
Jón Björn