2012

Wednesday, January 23, 2008

Vodkaendur

Meira að segja endurnar við Reykjavíkurtjörn hafa kastað inn handklæðinu og snúið sér að bokkunni. Gengi íslenska handboltalandsliðsins hefur verið hörmulegt á EM í Noregi og þjóðin er gersamlega farin á hliðina í þessum efnum rétt eins og í fjármálageiranum. Borgin sprungin, framsókn í sífelldri rénun og Fisher farinn á feðranna fund. Lítið um jákvæðar fréttir þessa dagana en öll él styttir upp um síðir og þá er aldrei að vita nema endurnar á tjörninni sjái sólina og láti renna af sér.

Sunday, January 20, 2008

Of miklar kröfur: Heyskita handboltalandsliðsins

Medalíudraumar íslenska handknattleikslandsliðsins eru endanlega úr sögunni eftir risastórt tap gegn Frökkum á EM í Noregi í dag. Menn voru örugglega einum of kokhraustir áður en þeir héldu til Þrándheims. Svona svipað kokhraustir og ég var í sumar þegar ég hélt virkilega að ég gæti klárað baðherbergið okkar á tveimur vikum. Það var grátlegt að sjá okkar menn gersamlega tekna í bakaríið af franska liðinu sem virtist ekki hafa neitt fyrir sigrinum. Man ekki til þess að hafa séð svitadropa á leikmanni Frakklands. 

Af boltagreinunum þremur, fóbolta, körfubolta og handbolta er handbolti minnsta íþróttagreinin á heimsvísu og sú verst launaðasta. Það er ekkert launungarmál. Handboltinn og gengi karlalandsliðsins er Íslendingum mikið hjartans mál og jafnan eru vonir okkar um gott gengi á stórmótum óraunhæfar. EM og HM eru sama keppnin. Bestu handknattleikslið heims koma frá Evrópu og á HM bætast við Ástralía og Katar og nokkur önnur lönd sem eiga ekki möguleika á mótinu.

Sjálfur gerðist ég sekur um að vonast eftir medalíu á EM í handboltanum þetta árið en nú hefur manni verið gróflega kippt niður á jörðina með skelfilegri frammistöðu liðsins í riðlakeppninni. Frammistaðan er svo slök að þulir RÚV hafa ekki einu sinni þorað að skamma landsliðið fyrir skammarlega lélega frammistöðu. Annars getum við öll sjálfum okkur um kennt fyrir að gera svona miklar væntingar til þeirra. Ég held að Alfreð og lærisveinar hefðu bara átt að segja að þeir væru ánægðir með að komast í milliriðla, allt annað væri bónus.

Svo bíður maður bara með öndina í hálsinum til að sjá hversu stórt Ísland tapar fyrir næstu smáþjóð í fótbolta karla. Gætum hugsanlega unnið Vatikanið þar sem við erum búnir að tapa fyrir Lichtenstein.

Nú í febrúar verður svo dregið í riðla á EM b-þjóða í körfunni en körfuboltalandslið karla er eina landsliðið sem hefur ekki valdið vonbrigðum að undanförnu. Minnugur glæsisigursins gegn Georgíu hér á haustmánuðum 2007 í Laugardalshöll.

Tjúnum aðeins niður kröfurnar okkar og reynum að hafa gaman af þessu!

Jón Björn

Friday, January 18, 2008

Forðist Ben Affleck

Var heima í gær og í dag í smá flensuskít og þá er fátt betra en að vera með fullan flakkara af ýmsu skemmtilegu. Davíði Ingi (fyrrverandi vinur minn eftir þetta) var svo góður að láta inn á flakkarann hjá mér kvikmyndina Man About Town með Ben Affleck í aðalhlutverki.

Ben Affleck hefur einu sinni leikið í góðri kvikmynd og það var ekki Man About Town. Eina góða myndin sem piltur hefur leikið í er með félaga sínum Matt Damon í myndinni Good Will Hunting en þá eru þeir félagar leiddir áfram af góðum leik Robin Williams.

Man About Town er með lakari myndum sem ég hef séð og nú hef ég séð ýmsan viðbjóðinn á borð við National Treasure myndirnar með Nicholas Cage eða bara allt með Nicholas Cage. Hann og Ben Affleck eru ámóta slakir leikarar. Hvernig í ósköpunum gátu þeir orðið vinsælir? Bara hér heima á klakanum get ég bent á í það minnsta 15 miklu betri leikara en Ben Affleck og Nicholas Cage.

Myndin sjálf er hæg og illa leikin og ef ekki hefði verið fyrir John Cleese inn á milli þá hefði ég eflaust slökkt mun fyrr á þessu bulli sem fjallar um umboðsmann fyrir handritshöfunda í Hollywood sem fer í einhverskonar innhverfa íhugun eða hvað sem þetta er nú kallað.

Útgangspunkturinn er s.s. þessi: Forðist allar myndir með Ben Afflec, alveg sama hversu heillandi coverið á myndinni eða treilerarnir að henni geta verið. Hann er gersamlega ónýtur leikari og með ofmetnari mönnum heims.

Góðar stundir

Hélt ég hefði hoppað hærra!

Já gleðilegt ár öllsömul. Þetta er önnur tveggja mynda sem var í jólakortinu okkar Hilmu. Skemmtileg mynd sem ljósmyndarinn Erlingur Ó. Aðalsteinsson tók á brúðkaupsdaginn okkar þann 6. október síðastilinn. Ég hef lengi haldið að ég væri ótrúlegur íþróttamaður en þessi mynd afsannar þær hugmyndir mínar. Mig minnir að ég hafi haft mig til flugs á þessari mynd og svifið um himinhvolfin eins og tígulegur örn í leit að bráð. Annað kom þó á daginn, ég rétt lyftist af göngustígnum þarna og er ekkert voðalega íþróttamansslegur. Ætli það sé ekki ein af ástæðunum fyrir því að ég sé blaðamaður ??? : )

Annars er allt gott að frétta úr Skipholti 51 og fiskarnir okkar gera fátt annað en fitna, við förum brátt að sleppa þeim í Reykjavíkurtjörn þessum elskum. Verða brátt flokkaðir sem spendýr ef vöxturinn heldur sér!


Jón Björn