Medalíudraumar íslenska handknattleikslandsliðsins eru endanlega úr sögunni eftir risastórt tap gegn Frökkum á EM í Noregi í dag. Menn voru örugglega einum of kokhraustir áður en þeir héldu til Þrándheims. Svona svipað kokhraustir og ég var í sumar þegar ég hélt virkilega að ég gæti klárað baðherbergið okkar á tveimur vikum. Það var grátlegt að sjá okkar menn gersamlega tekna í bakaríið af franska liðinu sem virtist ekki hafa neitt fyrir sigrinum. Man ekki til þess að hafa séð svitadropa á leikmanni Frakklands.
Af boltagreinunum þremur, fóbolta, körfubolta og handbolta er handbolti minnsta íþróttagreinin á heimsvísu og sú verst launaðasta. Það er ekkert launungarmál. Handboltinn og gengi karlalandsliðsins er Íslendingum mikið hjartans mál og jafnan eru vonir okkar um gott gengi á stórmótum óraunhæfar. EM og HM eru sama keppnin. Bestu handknattleikslið heims koma frá Evrópu og á HM bætast við Ástralía og Katar og nokkur önnur lönd sem eiga ekki möguleika á mótinu.
Sjálfur gerðist ég sekur um að vonast eftir medalíu á EM í handboltanum þetta árið en nú hefur manni verið gróflega kippt niður á jörðina með skelfilegri frammistöðu liðsins í riðlakeppninni. Frammistaðan er svo slök að þulir RÚV hafa ekki einu sinni þorað að skamma landsliðið fyrir skammarlega lélega frammistöðu. Annars getum við öll sjálfum okkur um kennt fyrir að gera svona miklar væntingar til þeirra. Ég held að Alfreð og lærisveinar hefðu bara átt að segja að þeir væru ánægðir með að komast í milliriðla, allt annað væri bónus.
Svo bíður maður bara með öndina í hálsinum til að sjá hversu stórt Ísland tapar fyrir næstu smáþjóð í fótbolta karla. Gætum hugsanlega unnið Vatikanið þar sem við erum búnir að tapa fyrir Lichtenstein.
Nú í febrúar verður svo dregið í riðla á EM b-þjóða í körfunni en körfuboltalandslið karla er eina landsliðið sem hefur ekki valdið vonbrigðum að undanförnu. Minnugur glæsisigursins gegn Georgíu hér á haustmánuðum 2007 í Laugardalshöll.
Tjúnum aðeins niður kröfurnar okkar og reynum að hafa gaman af þessu!
Jón Björn