2012

Friday, January 18, 2008

Forðist Ben Affleck

Var heima í gær og í dag í smá flensuskít og þá er fátt betra en að vera með fullan flakkara af ýmsu skemmtilegu. Davíði Ingi (fyrrverandi vinur minn eftir þetta) var svo góður að láta inn á flakkarann hjá mér kvikmyndina Man About Town með Ben Affleck í aðalhlutverki.

Ben Affleck hefur einu sinni leikið í góðri kvikmynd og það var ekki Man About Town. Eina góða myndin sem piltur hefur leikið í er með félaga sínum Matt Damon í myndinni Good Will Hunting en þá eru þeir félagar leiddir áfram af góðum leik Robin Williams.

Man About Town er með lakari myndum sem ég hef séð og nú hef ég séð ýmsan viðbjóðinn á borð við National Treasure myndirnar með Nicholas Cage eða bara allt með Nicholas Cage. Hann og Ben Affleck eru ámóta slakir leikarar. Hvernig í ósköpunum gátu þeir orðið vinsælir? Bara hér heima á klakanum get ég bent á í það minnsta 15 miklu betri leikara en Ben Affleck og Nicholas Cage.

Myndin sjálf er hæg og illa leikin og ef ekki hefði verið fyrir John Cleese inn á milli þá hefði ég eflaust slökkt mun fyrr á þessu bulli sem fjallar um umboðsmann fyrir handritshöfunda í Hollywood sem fer í einhverskonar innhverfa íhugun eða hvað sem þetta er nú kallað.

Útgangspunkturinn er s.s. þessi: Forðist allar myndir með Ben Afflec, alveg sama hversu heillandi coverið á myndinni eða treilerarnir að henni geta verið. Hann er gersamlega ónýtur leikari og með ofmetnari mönnum heims.

Góðar stundir

0 Comments:

Post a Comment

<< Home