Ætli árið hafi ekki verið svona 2003 eða 2004. Að kvöldi 31. mars lagði ég inn skilaboð til nokkurra vina minna um að sækja mig daginn eftir til að komast út í bæ og ná í minn eigin bíl í viðgerð. Kapparnir áttu að mæta kl. 7.30 að morgni 1. apríl niður á Skólavörðustíg þar sem ég bjó.
Nú, þegar 1. apríl rann upp og klukkan sló 7.30 voru komnir fjórir bílar fyrir utan húsið mitt. Þessir fjórir vinir mínir sem ég boðaði alla á fölskum forsendum til að sækja mig voru forstöðumaður virtrar bílaleigu, bankastarfsmaður, lögfræðinemi og starfsmaður í herrafataverslun. Eins og gefur að skilja var ég bara íslenskunemi við Háskóla Íslands en tókst samt að fá þessa fjóra forkólfa til þess að hlaupa (keyra) aprílgabb. Fyrir lítilmagnann var þetta stór sigur og honum fagnað með stríðsdansi á gangstéttinni framan við bílana fjóra þar sem nývaknaðir kapparnir biðu eftir mér, hver í sínum bíl.
Þrír þeirra tóku aprílgabbinu mjög vel og einn meira að segja skutlaði mér í skólann, Peugottinn 205 Forever Sport fékk því frí þennan daginn enda alveg búinn á því að bera þessa heimsins stærstu topplúgu á sér öllum stundum. Einn kappinn hinsvegar var ekki alveg jafn sáttur við þetta aprílgabb og spólaði í burtu af þvílíku afli að helluleggja þurfti Skólavörðustíg strax næsta sumar.
Mér er minnisstæður svipurinn á þeim sem spólaði í burtu, brjálaður (hann var s.s. starfsmaður herrafataverslunarinnar). Hann sendi mér löngutöngu sem jafnan þýðir að maður eigi að fara í rass og rófu en langatöngin nötraði svo ég tók þetta sem skilaboð um eitthvað miklu verra en rass og rófu. Svipurinn á mínum manni kl. 7.30 að morgni til, vitandi það að hann hefði hlaupið aprílgabb og átti ekki að mæta í vinnuna fyrir kl. 11:00. Þetta var yndisfögur sjón, litla andlitið hans var blóðhlaupið af reiði og hann spólaði svo hratt í burtu að háu kollvikin virtust vera eins og sportrendur á hausnum á honum um leið og hann brunaði hjá.
Enn þann dag í dag hefur hann ekki fyrirgefið mér. Til hamingju með daginn elsku ..... minn.
JB