2012

Tuesday, May 19, 2009

Þú verður ekki fallegur með frægðinni!

Góð og gild ástæða er fyrir handbremsum í öllum sjálfrennireiðum og nú er mál að rífa í handbremsuna á því máli sem í daglegu tali nefnist Alexander Rybak. Kappinn varð um helgina heimsfrægur fyrir að vinna Júróvisjónkeppnina fyrir hönd Norðmanna en það sem hefur verið í mestu hámæli í tengslum við sigur hans er hve fallegur, myndarlegur eða gerðarlegur hann sé. Hingað og ekki lengra!

Nú bara hættir þessi fásinna og það strax í gær. Alexander Rybak er ekki fallegur eins og meðfylgjandi mynd gefur sterklega til kynna. Ég þekki a.m.k. 17 karlmenn á Íslandi sem svipar til Alexanders og allir eiga þeir það sammerkt að vera ekki fallegir. Þeir kunna ekki á fiðlu og hafa ekki nýlega farið með Gillet Mach 3 rakvélina á milli augabrúna sinna en ef svo væri myndu þeir samt ekki teljast fallegir. Að horfast í augu við staðreyndir og viðurkenna að maður hafi látið gabba sig inn í stjörnufansið er eitt en annað og verra er að segja að ómyndarlegur karlmaður sé fallegur. Lagið hans Alexanders vann verðskuldaðan sigur í Júróvisjón en það er í besta falli fáránlegt að segja flytjandann eitthvert sjarmatröll.

Á venjulegri djammhelgi fyrir Júróvisijón hefði Rybak aldrei náð sér í geddu fyrir kl. 05 að morgni. Hinsvegar verður svona afturkreistingur allt í einu kyntákn eftir 3 mínútur á sviði í Rússlandi. Meira að segja Páll Óskar dósent í Júróvisjónfræðum sagði að Rybak væri hönk og kyntröll og allt í þessum dúr. Í fyrsta skiptið í langan tíma fannst mér Páll Óskar stíga feilspor!

Ef Rybak er þetta kyntákn getum við þá ekki sagt slíkt hið sama um bara allt frægt fólk?Woody Allen, Seal, Sigurjón Kjartansson, Björk, Krummi Bóson og margir fleiri eru til kallaðir og allt vafalítið yndislegar sálir en seint verða þau efniviður í fegurðarsamkeppnir... og að því sögðu mætti líka alveg leggja þær niður.

Við skulum bara aðeins ,,hand“bremsa okkur af í þessum fagurgala til handa frægum greppitrýnum og muna að þau eru fræg en það gerir þau ekki endilega falleg.

JB

Monday, May 04, 2009

Alger vitleysa

Gömul hjátrú segir það vita á gott sumar ef vetur og sumar frjósa saman en það gerðist einmitt hér í Reykjavíkinni að morgni sumardagsins fyrsta, fönn á jörðu í dagrenningu. Sem ég sit hér við þetta pár hugsa ég að ekki væri vitlaust að splæsa í eina örk eins og Nói og hreinlega sigla heim. Hellidemba og hvassviðri hafa verið allsráðandi síðan þessi fyrsti sumardagur rann upp.

Sumarið í fyrra var snilld, ég man að á heitasta degi sumarsins fór ég í golf í Mosfellsbæ og þá var 30 stiga hiti. Ég hóf leik með þremur gamalmennum og eftir aðeins fjórar holur, og verandi á golfbíl, voru þessir öldungar gersamlega sprungnir á limminu. Héldu rakleiðis upp í skála að fá sér bjór. Viðlíka veðurblíða og þá er eitthvað svo fjarstæðukennd hérna í slagviðrinu og maður getur ekki annað en hlegið að því að vera svo heimskur að hafa yfir höfuð hlustað á þessar kreddur; ,,það veit á gott sumar ef vetur og sumar frjósa saman!" Þvílík vitleysa.

Verandi ung og efnileg kynslóð sem brátt tekur við þjóðarskútunni getum við farið að búa til okkar eigin bull. Hér koma nokkrar tillögur:

,,Þú skalt hella niður salti ef bröndóttur köttur er í fréttatíma RÚV á páskadag."
,,Ef örvhentur maður berar sig í sumarsólstöðum er vissara að nota fósturstellinguna."
,,Maður með óeðlilega lítið höfuð getur á hlaupaári sótt um miskabætur í sínu stéttarfélagi ef hann telur að þessi aukadagur í febrúar valdi honum höfuðverk."

Ekki svo slæmt...

JB