2012

Tuesday, May 19, 2009

Þú verður ekki fallegur með frægðinni!

Góð og gild ástæða er fyrir handbremsum í öllum sjálfrennireiðum og nú er mál að rífa í handbremsuna á því máli sem í daglegu tali nefnist Alexander Rybak. Kappinn varð um helgina heimsfrægur fyrir að vinna Júróvisjónkeppnina fyrir hönd Norðmanna en það sem hefur verið í mestu hámæli í tengslum við sigur hans er hve fallegur, myndarlegur eða gerðarlegur hann sé. Hingað og ekki lengra!

Nú bara hættir þessi fásinna og það strax í gær. Alexander Rybak er ekki fallegur eins og meðfylgjandi mynd gefur sterklega til kynna. Ég þekki a.m.k. 17 karlmenn á Íslandi sem svipar til Alexanders og allir eiga þeir það sammerkt að vera ekki fallegir. Þeir kunna ekki á fiðlu og hafa ekki nýlega farið með Gillet Mach 3 rakvélina á milli augabrúna sinna en ef svo væri myndu þeir samt ekki teljast fallegir. Að horfast í augu við staðreyndir og viðurkenna að maður hafi látið gabba sig inn í stjörnufansið er eitt en annað og verra er að segja að ómyndarlegur karlmaður sé fallegur. Lagið hans Alexanders vann verðskuldaðan sigur í Júróvisjón en það er í besta falli fáránlegt að segja flytjandann eitthvert sjarmatröll.

Á venjulegri djammhelgi fyrir Júróvisijón hefði Rybak aldrei náð sér í geddu fyrir kl. 05 að morgni. Hinsvegar verður svona afturkreistingur allt í einu kyntákn eftir 3 mínútur á sviði í Rússlandi. Meira að segja Páll Óskar dósent í Júróvisjónfræðum sagði að Rybak væri hönk og kyntröll og allt í þessum dúr. Í fyrsta skiptið í langan tíma fannst mér Páll Óskar stíga feilspor!

Ef Rybak er þetta kyntákn getum við þá ekki sagt slíkt hið sama um bara allt frægt fólk?Woody Allen, Seal, Sigurjón Kjartansson, Björk, Krummi Bóson og margir fleiri eru til kallaðir og allt vafalítið yndislegar sálir en seint verða þau efniviður í fegurðarsamkeppnir... og að því sögðu mætti líka alveg leggja þær niður.

Við skulum bara aðeins ,,hand“bremsa okkur af í þessum fagurgala til handa frægum greppitrýnum og muna að þau eru fræg en það gerir þau ekki endilega falleg.

JB

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

HEHEHEHEHEHE heyr heyr.............
SDG

5:31 PM  

Post a Comment

<< Home