2012

Wednesday, February 27, 2008

Ágengar álftir

Fuglarnir voru aðgangsharðir við Lækinn í Hafnarfirði um síðustu helgi enda úti kalt og fátt um stingandi strá upp úr snjónum. Þessi unga dama á myndinni kom vopnuð brauðpoka frá Myllunni og þótti víst eitthvað sein til að koma brauðsneiðinni í umferð hjá fuglunum svo þeir bara færðu sig nær. Hugsanlega fóru þeir aðeins of nálægt því þeir hræddu líftórunu úr þessu litla vetrarklædda manndýri sem örskotsstundu síðar henti brauðsneiðinni í heilu lagi upp í álftina sem er komin alveg upp að henni. Þetta var skemmtilegt móment en þarna var ég á flakkinu fyrir Víkurfréttir í Hafnarfirði með myndavélina að vopni.

Jón Björn

Wednesday, February 20, 2008

Út í sólina

Þegar snjónum kyngdi niður í gær gat ég ekki annað en látið mig dreyma um sumar og sól. Væri nú ekki yndislegt að vera staddur á einhverri hitabeltisströndinni að sóla sig í bak og fyrir? Vera jafn áhyggjulaus og þessir kátu smjattpattar á meðfylgjandi myndum. Þeir þurfa hvorki sól né strönd til að að brúnin lyftist því ef það snjóar eru þessir kappar, Tristan og Darri, mættir í gallann og út að rúlla upp Snæfinni eða framkvæma önnur strákaprik.

Miðað við tíðarfarið liggur við að maður gerist dyggur stuðningsmaður hnattrænnar hlýnunnar. Öll él styttir þó upp um síðir og brátt verður maður farinn að reima á sig golfskóna eða bóna bílinn. Þangað til lætur maður sér það lynda að garfa í ferðabæklingum sem streyma nú inn um bréfalúgurnar.


Já, og áfram Liverpool!

Jón Björn


Monday, February 11, 2008

Gripnir glóðvolgir

Vinnuveitandi minn er kunnur golfari og sé tekið mið af meðfylgjandi myndbroti þá er ég nokkuð feginn að við höfum aldrei svona myndsímafundi - þá gæti margt komið upp úr dúrnum þar sem manni leiðist nú ekkert að taka í kylfu!

Wednesday, February 06, 2008

Dýrasti sleikjó í heimi!

Öskudagur að kveldi kominn og það ekki að kostnaðarlausu. Á meðan börnin streymdu inn á Fasteignasöluna Höfða í Hafnarfirði til þess að syngja fyrir nammi ágerðist löngun mín í sælgætið. Loks þegar engin börn voru á kreiki þá sætti ég lagi. Víkurfréttir í Hafnarfirði deila húsi með Höfða sem hélt úti körfu fullri af karamellusleikipinnum.

Ég nældi mér í eitt stykki og var þar á ferðinni hreint karamelludúndur. Ég saug og smjattaði og var að baxa við tölvuna þegar tungan á mér rakst utan í aðra framtönnina í hamaganginum og viti menn... ég fann að gamla framtannarfyllingin var horfin!

Saga framtanna minna er þyrnum stráð og hefst að mig minnir að Holtsgötu 17 þegar mig dreymdi um að eignast hjólabretti. Ég varð að láta mér plastbíl systur minnar lynda og þeir eru ekki ákjósanlegir sem hjólabretti. Afleiðingin var brotin framtönn og nokkrum sinnum eftir það braut ég í mér framtennurnar, við að bíta pinna úr epli, datt á svelli og nartaði glæsilega í steypuvegg þegar ég reyndi að klifra yfir hann. Síðast en ekki síst var ég eitt sumarið á fótboltaæfingu og skutlaði mér á stöng með þeim afleiðingum að taugin í annarri tönninni drapst.

Þetta síðasta framtannaafrek mitt í dag er það minnst karlmannlegasta af þeim öllum. Það er hollt og gott að borða epli en að týna broti úr framtönn í karamellusleikjó er bæði niðurlægjandi og dýrt, við skulum segja tæpar 14 þúsund krónur.

Jón Björn