2012

Wednesday, February 06, 2008

Dýrasti sleikjó í heimi!

Öskudagur að kveldi kominn og það ekki að kostnaðarlausu. Á meðan börnin streymdu inn á Fasteignasöluna Höfða í Hafnarfirði til þess að syngja fyrir nammi ágerðist löngun mín í sælgætið. Loks þegar engin börn voru á kreiki þá sætti ég lagi. Víkurfréttir í Hafnarfirði deila húsi með Höfða sem hélt úti körfu fullri af karamellusleikipinnum.

Ég nældi mér í eitt stykki og var þar á ferðinni hreint karamelludúndur. Ég saug og smjattaði og var að baxa við tölvuna þegar tungan á mér rakst utan í aðra framtönnina í hamaganginum og viti menn... ég fann að gamla framtannarfyllingin var horfin!

Saga framtanna minna er þyrnum stráð og hefst að mig minnir að Holtsgötu 17 þegar mig dreymdi um að eignast hjólabretti. Ég varð að láta mér plastbíl systur minnar lynda og þeir eru ekki ákjósanlegir sem hjólabretti. Afleiðingin var brotin framtönn og nokkrum sinnum eftir það braut ég í mér framtennurnar, við að bíta pinna úr epli, datt á svelli og nartaði glæsilega í steypuvegg þegar ég reyndi að klifra yfir hann. Síðast en ekki síst var ég eitt sumarið á fótboltaæfingu og skutlaði mér á stöng með þeim afleiðingum að taugin í annarri tönninni drapst.

Þetta síðasta framtannaafrek mitt í dag er það minnst karlmannlegasta af þeim öllum. Það er hollt og gott að borða epli en að týna broti úr framtönn í karamellusleikjó er bæði niðurlægjandi og dýrt, við skulum segja tæpar 14 þúsund krónur.

Jón Björn

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Úff einhver hefur séð eftir þessum sleikjó ofan í þig :( Ekki gott mál en líttu á björtu hliðarnar þú ert eins og Bó forðum daga:)

Kv. Guðrún Þorgerður

3:13 PM  
Anonymous Anonymous said...

Það er ekkert ofboðslega bjart við að vera líkt við Bó! Enda hefur það löngum verið mér ráðgáta hvernig íslensk kvenþjóð gat tekið flikk flakk heljarstökk, hnakka- og hliðarstökk yfir Bó. Hreint alls ekkert gott mál að vera líkt við RÖDDINA - Guðrún? finnst þér ég vera ljótur? : (

Jón Björn ljóti

9:21 PM  

Post a Comment

<< Home