2012

Saturday, December 23, 2006

Hamagangur í Höfnum á aðfangadag

Þarna lá ég hálfur út af bryggjunni með grátstafinn í kverkunum og fylgdist með lífi nýjasta „fjölskyldumeðlimsins“ fjara út á aðfangadag. Óðagotið var algert og ég, pabbi og afi horfðum úrræðalausir á hvorn annan á meðan Pía þreytti hundasund að bryggjuendanum í Höfnum.

Við þremenningarnir höfðum gert okkur ferð út í Hafnir til þess að huga að leiðum ættingja. Blendingstíkin Pía, þá nokkurra mánaða gömul, fékk að fljóta með í gamla Benzanum hans afa. Þegar við höfðum lokið við ferðina í kirkjugarðinn var haldið niður á bryggju bara svona til að litast um. Ég og afi gengum út að bryggjuendanum til þess að létta á okkur á meðan sat pabbi með hundspottið í bílnum. Pabbi ákvað að slást í hópinn með okkur úti á bryggju og hugsaði með sér að það væri nú í lagi að hleypa hundinum aðeins út. Eins og þruma úr heiðskýru lofti skaust Pía út úr bílnum um leið og pabbi opnaði hurðina, tók stefnuna á bryggjuendann og stökk, á milli mín
og afa, eins og hún ætti lífið að leysa fram af bryggjunni. Ef mig minnir rétt þá held ég að hundurinn hafi litið við í loftinu og sent okkur svip sem útleggst einhvern veginn svona: Úbbs!

Það var ekki fyrr en vi› heyrðum smellinn í sjónum að við áttuðum okkur á því hvað hafði gerst. Við tók einn mesti hamagangur sem ég hef upplifað og mín fyrstu viðbrögð voru að reyna að leysa björgunarhringinn sem var flarna skammt frá. Mér til mikillar armæðu hafði einhver snillingurinn sett hvern rembihnútinn ofan á annan svo hver sekúnda sem leið meðan ég reyndi að losa hnútinn var sem klukkutími. Á meðan ég var að bagsa við að losa björgunarhringinn hafði afi farið í skottið á Bensanum og náð þar í spotta og reyndi að kasta honum í tíkina og hvæsti á hana: „Svona bítt í´etta." Pía hefði eflaust bitið á agnið ef það hefði verið Pedigree-dós bundin við endann á spottanum en hún fúlsaði við líflínunni og tók stefnuna að bryggjunni. Ég var enn við björgunarhringinn, og hugsaði þeim þegjandi þörfina er fest höfðu björgunarhringinn svo kirfilega.

Heimafyrir voru móðir mín og systir, þá 10 ára gömul, að bíða eftir okkur en hundurinn og litla systir mín voru miklir mátar, nánast óaðskiljanlegar. Vitandi það að lítil hnáta biði heima á aðfangadag með spennuglampa í augum tók faðir minn til sinna ráða. Pía var komin að bryggjuendanum og byrjuð að klóra í bryggjuna í von um að komast á þurrt, ég hættur að reyna við rembihnútana og hélt að mér tækist að bjarga henni ef ég flautaði og léti öllum illum látum. Pabbi vatt spottanum frá afa utan um sig og skutlaði sér í sjóinn. Við hinn endann á spottanum stóð afi og ég man að mér fannst eins og hann væri sterkasti maður í heimi þegar hann hélt pabba þarna á floti í köldum desembersjónum við Hafnir.

Pía kerlingin var tilbúin til þess að kveðja þennan heim, allur skrokkurinn var sokkinn og aðeins trýnið og augun stóðu upp úr sjónum þegar pabbi náði í hnakkadrambið á henni. Afi var öruggur á spottanum svo pabbi eiginlega kastaði tíkinni upp í fangið á mér þar sem ég lá hálfur út af bryggjunni. Það reyndi á hvert bein í líkama mínum við að koma hundinum upp á bryggjuna. Að lokum komst Pía á þurrt og við afi hjálpuðum pabba aftur upp á bryggju.

Þegar heim var komið þurftum við að útskýra afhverju pabbi var svona blautur og afhverju ég væri svona náfölur í framan. Mamma og systir mín óuðu og æjuðu inn á milli í frásögninni en það var ómetanlegt að sjá til systur minnar þegar hún faðmaði Píu að sér og setti litla rauða jólaslaufu í ólina hjá henni. Það gerðist vitaskuld eftir að pabbi og Pía höfðu farið saman í jólasturtu. Tíkin Pía er að verða 11 ára gömul eða 77 ára í hundheimum, enn þann dag í dag er hún mikið jólabarn en hefur allar götur síðan bryggjuatvikið í Höfnum haldið sig fjarri sjónum.

Gleðileg jól,
Jón Björn Ólafsson

Wednesday, December 13, 2006

Íslenskur hversdagsleiki

Þá er rúm vika síðan við komum heim og allt komið í fasta rútínu.

Hápunktar vikunnar:
Endurráðning J.B. á Víkurfréttir
Fylleríis vinnupartý hjá mér
Endalaus þreyta
Glæsileg jólasýning FK
Brúntertubakstur
Jólatónleikar í Hallgrímskirkju

Já. Jón minn er kominn aftur á Víkurfréttir. Verður reyndar í Hafnarfirði þannig að nú ættu ekki að verða fleiri einmanalegar nætur hér á Skóló. Við erum bæði hæstánægð með þessa ákvörðun okkar. Rosalega fínt að vera bæði í vinnu og ekkert að skólavesenast. Geggjað gott að vera ekki í prófastressi á þessum tímum. En er ekki týbískt að um leið og lífið er komið í fastar skorður hvað það varðar erum við farin að hugsa um framhaldsnám.

Fór í vinnupartý á föstudaginn hjá henni Rut minni. Íbúðin var fljótandi af áfengi og bar ástand fólksins þess fljótt merki. Alltaf gaman að sjá vinnufélaga sína sauðdrukkna. Ég er nú ekkert alsaklaus af þessu fylleríi en ég hagaði mér ágætlega. Skipuleggjendur partýsins voru með pakkaleik fyrir liðið. Geggjað skemmtilegt, alveg eins og í barnaafmælunum góðu.

En mikið djö... er ég búin að vera þreytt. Ég bókstaflega held mér ekki vakandi hér heima hjá mér á kvöldin. Mig langaði t.d. rosalega að horfa á úrslitaþáttinn á So you Think you can Dance í gær en ég rétt vaknaði inn á milli atriða til að spyrja Jón Björn hvað hefði gerst og hvort dansarnir hefðu verið flottir, eins og hann hefði nokkurt vit á því.

Árleg jólasýning Fimleikadeildar Keflavíkur var s.l. laugardag. Sýningin var glæsileg að vanda en Bryndís Jóna og Hildur María Magnúsdætur sáu um sýninguna þetta árið. Bryndís Jóna, sem er auðvitað orðin þekktur unglingabókahöfundur, skrifaði jólasögu sem harmoneraði við atriðin. Mjög vel gert. Til hamingju stúlkur.

BRÚNTERTUBAKSTUR! Ég veit þið eigið erfitt með að trúa þessu en ég er búin að baka brúntertu. Mhm. Þessa með hvítu kremi og sultu á milli, svona lagtertu. Þannig er mál með vexti að hin eina sanna Amma Fríða kenndi mér að gera svona tertu fyrir um tveimur árum síðan. Hún spyr mig svo reglulega að því hvort ég sé búin að baka herlegheitin en svarið er alltaf NEI ...eða var alltaf nei. Mín tók sig svo til um helgina og skellti í eina slíka. Afraksturinn var afhjúpaður síðdegis í dag og þetta heppnaðist bara svona stórkostlega. Bragðar alveg eins og hjá ömmu gömlu, ég er ekki að grínast. Reyndar gekk þetta ekki vandræðalaust fyrir sig því það þurfti tvö deig til ...fleira fylgir ekki þessari sögu. Eins og þið vitið flest, ef ekki öll, þá er ég alnafna ömmu minnar og því fylgja ýmis fríðindi, skyldur og kvaðir. Eitt af öllu fyrrgreindu er að ég skuli geta gert brúntertu eins og hún.

Nú var ég að koma af jólatónleikum í Hallgrímskirkju. Tveir kvennakórar og Stúlknakór Reykjavíkur voru með tónleika og voru þeir hreint út sagt dásamlegir. Þetta eru sjöttu jólin mín hér á Skólavörðustígnum og hefur mig alltaf langað til að fara í Hallgrímskirkju á aðventunni en aldrei látið verða af því, líklegast út af prófastressi. Nú lét ég verða af því og sé ekki eftir því. Ég bauð mömmu og ömmu með mér. Við mæðgurnar byrjuðum á því a borða saman á Indian Mango, frábær veitingastaður sem framreiðir unaðslega ljúffengan mat. Ég hef einu sinni komið þangað áður með honum Jóni Birni mínum og var það álíka ljúffengt, nema hvað... Maðurinn sem líklegast á staðinn tilkynnti mér það þegar við vorum að fara út áðan að ég væri hans uppáhalds viðskiptavinur þar sem ég kæmi svo oft! Hmmm... Annað hvort á ég tvífara sem fer óvenju oft á Indian Mango eða þá að maðurinn sjái mig í öðru umhverfi og sé eitthvað að ruglast. Ég held reyndar að hið síðarnefnda sé rétt. Ég er alltaf að sjá þennan mann hér i miðbænum.

Skellti inn nokkrum myndum hérna til að gera þetta skemmtilegra. Aðeins ein hefur eitthvað með færsluna að gera. Efsta myndin er bara til að hlýja minningunum um yndislegar stundir í Ástralíuferðinni. Miðjumyndin er af ungum fimleikastjörnum sem eru nýbúnar að læra handahlaup, gerist ekki mikið krúttlegra. Síðasta myndin er af Jóni Birni að tapa sér í Kínahverfi Singapore-borgar, óborganlegt!

En jæja, nú er komið fram yfir minn háttatíma. Ótrúlegt að ég sé enn vakandi.

Góða nótt, Hilma

Wednesday, December 06, 2006

Hvað skal elda...?


Við höfum örugglega komið með háa verðlagið með okkur frá Singapore. Með fyrstu fréttunum sem maður las var að ýmsar áfengistegundir myndu hækka í verði. Ríkisstjórnin sér nú alveg til þess að þegar einn hlutur lækkar, t.d. einhver skatturinn, þá hækkar annar hlutur og hvar er betra að hækka en í ÁTVR þar sem ríkið er eini söluaðilinn að áfengi? Þá kom það fram í gær að Reykjavíkurborg mun hækka verulega alla sína gjaldskrá. Maður hálfpartinn óskar þess að hafa komið heim frá Víetnam eða Austur-Evrópu, þá hefðum við kannski lesið fréttir um stórkostlegar skatta- og verðlækkanir. Þykir það samt ólíklegt.

Tímamismunurinn er eitthvað örlítið að stríða okkur, síðustu 5 vikur höfum við verið átta klukkutíma á undan Íslandi og nú erum við að reyna að snúa öllu þessu við. Hilma var komin á fætur rétt fyrir sex í morgun þannig að við eigum svolítið í land ennþá.

Erfitt hefur verið að venjast gamla kuldanum en það kemur fljótlega. Við vorum fegin að missa af þessu svakalega kuldakasti sem gekk yfir landið á meðan við vorum úti. Ekki slæmt að vera á ströndinni og vita til þess að íslenskar götur voru baðaðar í snjókrapa og sultardropum.

Eina raunverulega vandamálið núna er að fara aftur að elda enda góðu vön af framandi veitingahúsamat á erlendri grundu. Það er reyndar algjör klassík að elda sér fisk þegar maður kemur heim frá útlöndum en mig langar ekkert í fisk, nenni ekki að elda og langar út að borða.

Með því síðasta sem við gerðum í Singapore var að fara í ,,Botanic Garden” sem er opinn garður í miðborg Singapore þar sem hægt er að finna allar plöntur sem vaxa þar í landi og víðar. Merkilegast var þó orkidíusafnið þar í garði en þar er hægt að finna allar orkidíutegundir sem til eru eða rúmlega 2000 talsins og þeim fer fjölgandi. Þessi fallegu blóm eru mörg hver í VIP orkidíugarðinum og eru þ.a.l. nefnd eftir einhverjum frægum. Sem dæmi má nefna var Margaret Tacher orkidían fremur álkuleg eins og gamla járnfrúin var en engu að síður var blómið svona tignarlega álkulegt.

Heilt yfirlitið gengur íslenska aðlögunin ágætlega hjá okkur en það verður að viðurkennast að okkur langaði ekkert voðalega mikið heim. Hingað erum við samt komin.

Jón Björn

Mynd 1: Grúbban í Botanic Garden
Mynd 2: Ekki Tatcher orkidían, einhver önnur sem Hilma fann sig knúna til að taka mynd af.
Mynd 3: Reyndi fyrir mér sem módel minnugur minna starfa fyrir Bláa Lónið. Ferill sem á einhvernveginn ekki við mig. Það vantar eitthvað. T.d. þvottabrettið á magann?
Mynd 4: Á leið út úr Botanic Garden og stefnan tekin heim.

Monday, December 04, 2006

A heimleid

jaeja... nu erum vid buin ad vera a ferdalagi solarhring og ordin ansi threytt og thvaeld. Vid thurftum ad gera 7 klst stopp a Heathrow og eru thvi midur enn 4 klst enn eftir i flugid okkar heim a klakann. Pabbi klari reddadi okkur natturulega inn a einhvern lounge herna thar sem vid hofum nad ad slaka adeins a.

Dvolin i Singapore var bara aedisleg. Eg rambadi a einhvern lux baekling um Singapore thegar vid vorum i Perth og var eins og alvitur kona um alla hipp og kul stadina thar i borg. Vid bordudum a aedislegum matsolustodum, forum i vatnagard, forum a einhverja ferdamannaeyju og nutum lifsins til hins fyllsta i ollu thvi sem vid gerdum. Yndislegir dagar. En borgin er rosalega dyr.

En jaeja minuturnar minar a tolvunni eru ad renna ut. Hlakka til ad sja familiuna i kvold og ykkur hin sem fyrst.

Over & out
Hilma