2012

Saturday, December 23, 2006

Hamagangur í Höfnum á aðfangadag

Þarna lá ég hálfur út af bryggjunni með grátstafinn í kverkunum og fylgdist með lífi nýjasta „fjölskyldumeðlimsins“ fjara út á aðfangadag. Óðagotið var algert og ég, pabbi og afi horfðum úrræðalausir á hvorn annan á meðan Pía þreytti hundasund að bryggjuendanum í Höfnum.

Við þremenningarnir höfðum gert okkur ferð út í Hafnir til þess að huga að leiðum ættingja. Blendingstíkin Pía, þá nokkurra mánaða gömul, fékk að fljóta með í gamla Benzanum hans afa. Þegar við höfðum lokið við ferðina í kirkjugarðinn var haldið niður á bryggju bara svona til að litast um. Ég og afi gengum út að bryggjuendanum til þess að létta á okkur á meðan sat pabbi með hundspottið í bílnum. Pabbi ákvað að slást í hópinn með okkur úti á bryggju og hugsaði með sér að það væri nú í lagi að hleypa hundinum aðeins út. Eins og þruma úr heiðskýru lofti skaust Pía út úr bílnum um leið og pabbi opnaði hurðina, tók stefnuna á bryggjuendann og stökk, á milli mín
og afa, eins og hún ætti lífið að leysa fram af bryggjunni. Ef mig minnir rétt þá held ég að hundurinn hafi litið við í loftinu og sent okkur svip sem útleggst einhvern veginn svona: Úbbs!

Það var ekki fyrr en vi› heyrðum smellinn í sjónum að við áttuðum okkur á því hvað hafði gerst. Við tók einn mesti hamagangur sem ég hef upplifað og mín fyrstu viðbrögð voru að reyna að leysa björgunarhringinn sem var flarna skammt frá. Mér til mikillar armæðu hafði einhver snillingurinn sett hvern rembihnútinn ofan á annan svo hver sekúnda sem leið meðan ég reyndi að losa hnútinn var sem klukkutími. Á meðan ég var að bagsa við að losa björgunarhringinn hafði afi farið í skottið á Bensanum og náð þar í spotta og reyndi að kasta honum í tíkina og hvæsti á hana: „Svona bítt í´etta." Pía hefði eflaust bitið á agnið ef það hefði verið Pedigree-dós bundin við endann á spottanum en hún fúlsaði við líflínunni og tók stefnuna að bryggjunni. Ég var enn við björgunarhringinn, og hugsaði þeim þegjandi þörfina er fest höfðu björgunarhringinn svo kirfilega.

Heimafyrir voru móðir mín og systir, þá 10 ára gömul, að bíða eftir okkur en hundurinn og litla systir mín voru miklir mátar, nánast óaðskiljanlegar. Vitandi það að lítil hnáta biði heima á aðfangadag með spennuglampa í augum tók faðir minn til sinna ráða. Pía var komin að bryggjuendanum og byrjuð að klóra í bryggjuna í von um að komast á þurrt, ég hættur að reyna við rembihnútana og hélt að mér tækist að bjarga henni ef ég flautaði og léti öllum illum látum. Pabbi vatt spottanum frá afa utan um sig og skutlaði sér í sjóinn. Við hinn endann á spottanum stóð afi og ég man að mér fannst eins og hann væri sterkasti maður í heimi þegar hann hélt pabba þarna á floti í köldum desembersjónum við Hafnir.

Pía kerlingin var tilbúin til þess að kveðja þennan heim, allur skrokkurinn var sokkinn og aðeins trýnið og augun stóðu upp úr sjónum þegar pabbi náði í hnakkadrambið á henni. Afi var öruggur á spottanum svo pabbi eiginlega kastaði tíkinni upp í fangið á mér þar sem ég lá hálfur út af bryggjunni. Það reyndi á hvert bein í líkama mínum við að koma hundinum upp á bryggjuna. Að lokum komst Pía á þurrt og við afi hjálpuðum pabba aftur upp á bryggju.

Þegar heim var komið þurftum við að útskýra afhverju pabbi var svona blautur og afhverju ég væri svona náfölur í framan. Mamma og systir mín óuðu og æjuðu inn á milli í frásögninni en það var ómetanlegt að sjá til systur minnar þegar hún faðmaði Píu að sér og setti litla rauða jólaslaufu í ólina hjá henni. Það gerðist vitaskuld eftir að pabbi og Pía höfðu farið saman í jólasturtu. Tíkin Pía er að verða 11 ára gömul eða 77 ára í hundheimum, enn þann dag í dag er hún mikið jólabarn en hefur allar götur síðan bryggjuatvikið í Höfnum haldið sig fjarri sjónum.

Gleðileg jól,
Jón Björn Ólafsson

5 Comments:

Anonymous Anonymous said...

gleðileg jól til ykkra allra og farsælt nýtt ár. Endalausar þakkir fyrir frábært blogg og vinskap á liðnum árum
Jólakveðjur frá Flórída,
Ólafía og Sara Rós

2:09 AM  
Anonymous Anonymous said...

Allt er gott sem endar vel og gott að hún Pía bjargaðist. Takk fyrir allar stundirnar á árinu og gleðilega hátið elskurnar mínar:)

Kær kveðja,
Guðrún og Loftur

3:54 PM  
Anonymous Anonymous said...

Þið erið duglegir Hafnamennirnir og ekki skemmir það að þetta ævintíri gerðist í Hollíwood.

Jólakveðja Siggi Valla.

9:22 PM  
Blogger Rósaklikk said...

Jón Björn ég var að sjá commentið itt áðan á Grímu og ég trúði þessu. Sjitt ég fékk í magann :) Einn daginn ætla ég að hrekkja þig. Vá ég fékk sjokk!!!

3:03 AM  
Blogger Hilma og Jón Björn said...

Bring it on Rósaklikk : )

6:01 PM  

Post a Comment

<< Home