2012

Friday, April 20, 2007

Aðskilnaður við Miðborgina

Gleðilegt sumar kæru vinir og takk fyrir veturinn.

Þeir atburðir sem hafa átt sér stað í Miðborginni okkar fögru á tímamótum vetur og sumars 2007 eru hreint út sagt voðalegir. Við Jón björn höfum notið þeirra forréttinda að búa með Miðborginni síðustu 6 ár og liðið alveg hreint yndislega. Mér dettur helst í hug að borgin sé í uppnámi vegna væntanlegra flutninga okkar, en við biðjum hana um að örvænta ekki þar sem við verðum skammt undan. Nú verður bara spennandi að sjá hvað ákveðið verður að gera á horninu fræga. Mér finnst nú í lagi að reyna að halda upprunalegri mynd hornsins en yrði ekkert svakalega sár þó Pravda húsið verði öðruvísi á að líta eftir uppbyggingu.



En nú er búið að selja Skólavörðustígsíbúðina. LOKSINS. Eins og mér finnst íbúðin falleg og gott að búa hér tók heila 2 mánuði að selja hana. Skil það ekki ennþá. Við vorum búin að halda íbúðinni spikk & span upp á hvern einasta dag í þessa tvo mánuði og alltaf að sýna með bros á vör. Nú er sú tíð liðinn og tiltekt og pökkun tekur við. Við byrjum á öllu slíka þegar við komum heim frá Spáni.





Við skötuhjúin erum nefnilega að fara til Spánar með allri fjölskyldunni. Pabbi kallinn ætlar að halda upp á fimmtugsafmælið í sólinni og þar sem hann er einstaklega vinæll maður ætlar stórfjölskyldan að elta hann út í hitann. Ég verð allavega á bikiníinu í næstu viku rétt eins og Betty boop á myndinni hér til hliðar.

Eitt að lokum. Hún Kamilla mín á afmæli á sunnudaginn. Innilega til hamingju með daginn mín kæra. Njóttu!

Ást og friður á Dalvík sem og víðar
Hilma

Sunday, April 15, 2007

Oprah Winfrey á næstu fiskidögum?

Við Hilma urðum þess heiðurs aðnjótandi síðasta sumar að fara á fiskidaga á Dalvík en það er ein skemmtilegasta bæjarhátíð sem ég hef farið á. Þar gúffuðum við í okkur alls kyns fiskréttum ásamt bjór og öðrum áfengum drykkjum og skemmtum okkur konunglega alla helgina. Stefnan er að fara aftur á fiskidaga og við viljum endilega að sem flestir fjölmenni með okkur.

Núna rétt í þessu var sunnudagsviðtalinu í Kastljósinu að ljúka en það var viðtal við helsta skipuleggjanda fiskidaganna á Dalvík þar sem hann tjáði alþjóð að stefnt væri að því að fá Opruh Winfrey á næstu fiskidaga. Magnað! Eða þannig.

Það síðasta sem fiskidagarnir á Húsavík þurfa á að halda er risanafn á borð við Opruh Winfrey til þess að koma og stela allri þrumunni úr hátíðinni. Það sem ég varð ástfanginn af á fiskidögum var þessi nett kærulausa stemmning þar sem maður gat bankað upp á hjá fólki og fengið sér súpu. Ef Oprah mætir á fiskidagana þá verður engin súpa, allir súpugerðarmenn á Dalvík sem vert er að nefna verða uppteknir við að hafa sig fína og gera sig klára til að fara og sjá Opruh og þá verðum við blóðsugurnar út undan, engin frí súpa, bara haugur af fólki niðri á bryggju að bíða eftir Opruh til þess að sjá hvort hún sé grönn eða feit á bryggjunni.

Ég vil endilega hafa bara suðsvartan almúgan eins og okkur á fiskidögum, Rúnni Júll á sviðinu og Papar um kvöldið og gallabuxur og lopapeysur. Einfalt, fljótlegt og gott og laust við allt Kanaglamúr.

Lifi fiskidagarnir!

Wednesday, April 04, 2007

Heima yfir páskahátíðina

Heima er best stendur einhvers staðar ritað og þannig verður málum háttað hjá okkur Hilmu yfir páskahátíðina. Við ætlum okkur bara að rúnta Reykjanesbrautinni millum 101 og 260 og hafa það náðugt. Að vísu þarf ég að vinna eitthvað um helgina en það er ekki 100 í hættunni svo maður getur nú örugglega eitthvað sofið út.

Fyrir ykkur hin sem eruð jafn ferðalagaglöð og við eða þannig, þá verður heitt á könnunni hjá okkur um helgina en ég stórefa það að þessi súkkulaðirisi mér við hlið á myndinni verði í sama formi þegar þið lítið við.

Gleðilega páska,
Jón Björn og Hilma

Tuesday, April 03, 2007

Áfram stelpur

Evrópumót lesbía í blaki haldið hér
Yfir eitt hundrað lesbíur frá Þýskalandi, Hollandi og Bretlandi koma hingað til lands um páskana, til að keppa í blaki. Blaklið KMK eða Kvenna með konum héðan frá Íslandi tekur einnig þátt í mótinu.
Þetta er í nítjánda sinn sem evrópskar lesbíur halda alþjóðlegt blakmót, en íslenskar lesbíur taka nú þátt í mótinu í fjórða sinn. Evrópumót lesbía í blaki verður haldið í íþróttahöll Fylkis í Árbæ í Reykjavík um næstu helgina.


Sem íþróttafréttamaður þá kemur þessi frétt hér að ofan mér nokkuð skringilega fyrir sjónir. Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki að lesbíur héldu blakmót af viðlíka stærðargráðu. Eftir smá umhugsun þá fór ég að velta því fyrir mér af hverju þær kepptu ekki bara með gagnkynhneigðum, tvíkynhneigðum og fleirum eða sem sagt í opnum deildum þar sem öllum er heimilt að taka þátt, þá öllum konum á ég við. Ég hafði nú á sínum tíma haft veður af einhverju fótboltamóti hjá samkynhneigðum en þetta var algerlega nýtt fyrir mér. Sá grunur rennur á mig að þetta sé nú meira hópefli heldur en mót. Að lesbíur hvaðan af úr Evrópu komi saman til þess að treysta böndin og að keppnin slík sé nú ekki í hávegum höfð.

Ef það reynist vera að lesbíurnar séu komnar hingað til lands með það eitt að markmiði að berjast um einhvern meistaratitil í blaki þá er skammt að bíða fleirri afkimagreina úr íþróttaheiminum. Handbolti fyrir hómópata, íshokkí fyrir einfætta, sund fyrir sálfræðinga, körfubolti fyrir köntrísöngvara og fleira í þessum dúr.

Ekki gefur þó að skilja að þessi þróun sé eitthvað slæm en í landi sem telur rétt rúmlega 300 þúsund manns getur það orðið fátæklegt að tefla fram jafn sérhæfðum liðum. Hversu margar samkynhneigðar konur er hægt að finna á Íslandi sem eru frambærilegar á alþjóðavettvangi í blaki?

Svarið er augljóst!
Fullt af þeim, það er hægt að finna fullt af frambærilegum íslenskum lesbíum í alþjóðablak. Við erum bara þannig - áfram stelpur og sýnið þessum útlendingum hvernig á að smassa í tuðruna.

Jón Björn