2012

Sunday, April 15, 2007

Oprah Winfrey á næstu fiskidögum?

Við Hilma urðum þess heiðurs aðnjótandi síðasta sumar að fara á fiskidaga á Dalvík en það er ein skemmtilegasta bæjarhátíð sem ég hef farið á. Þar gúffuðum við í okkur alls kyns fiskréttum ásamt bjór og öðrum áfengum drykkjum og skemmtum okkur konunglega alla helgina. Stefnan er að fara aftur á fiskidaga og við viljum endilega að sem flestir fjölmenni með okkur.

Núna rétt í þessu var sunnudagsviðtalinu í Kastljósinu að ljúka en það var viðtal við helsta skipuleggjanda fiskidaganna á Dalvík þar sem hann tjáði alþjóð að stefnt væri að því að fá Opruh Winfrey á næstu fiskidaga. Magnað! Eða þannig.

Það síðasta sem fiskidagarnir á Húsavík þurfa á að halda er risanafn á borð við Opruh Winfrey til þess að koma og stela allri þrumunni úr hátíðinni. Það sem ég varð ástfanginn af á fiskidögum var þessi nett kærulausa stemmning þar sem maður gat bankað upp á hjá fólki og fengið sér súpu. Ef Oprah mætir á fiskidagana þá verður engin súpa, allir súpugerðarmenn á Dalvík sem vert er að nefna verða uppteknir við að hafa sig fína og gera sig klára til að fara og sjá Opruh og þá verðum við blóðsugurnar út undan, engin frí súpa, bara haugur af fólki niðri á bryggju að bíða eftir Opruh til þess að sjá hvort hún sé grönn eða feit á bryggjunni.

Ég vil endilega hafa bara suðsvartan almúgan eins og okkur á fiskidögum, Rúnni Júll á sviðinu og Papar um kvöldið og gallabuxur og lopapeysur. Einfalt, fljótlegt og gott og laust við allt Kanaglamúr.

Lifi fiskidagarnir!

5 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Já kanaglamúrinn er ekkert á borð við klassíska fiskidaga...

fía

10:16 PM  
Anonymous Anonymous said...

Hljómar vel, við höfum einmitt aldrei farið en margir í fjölskyldunni fara árlega:) Hvenær er svo fiskidagurinn mikli í ár?

2:09 PM  
Anonymous Anonymous said...

Um leið og þú flytur Dalvík til Húsavíkur þá flyt ég Reykjanesið eins og það leggur sig til Vestmannaeyja. En ég er reyndar alveg sammála þér með Opruh....hún yrði bara til trafala.

Sjáumst á Dalvíkinni í sumar.

Sigrún Ö.
(50% Hafnfirðingur og 50% Dalvíkingur).

12:56 PM  
Anonymous Anonymous said...

Afsakið - þetta er rangur misskilningur frú Stella.

Ég virðist óvart hafa flutt fiskidagna til Húsavíkur neðarlega í þessum pistli mínum, þetta er krónískt ástand, í fyrra flutti ég Húsafell til Hvolsvallar og árið þar áður færði ég Færeyjar til Ísafjarðar, nei...þeir tala bara svona skrýtið fyrir vestan : )

Biðst velvirðingar á þessu en mig langar ekki til að leiðrétta þetta heheh

Jón Björn

2:18 PM  
Anonymous Anonymous said...

jæja, núna er komin júní... hvernig væri að skrifa eitthvað nýtt og skemmtilegt?
Fínt að frétta frá flórída,
fía

3:53 AM  

Post a Comment

<< Home