2012

Friday, March 02, 2007

Af litlum neista getur komið mikið bál

Fyrir skemmstu átti ég erindi til Grindavíkur og var förinni heitið þangað til að fylgjast með körfuboltaleik. Ég var fremur snemma á ferðinni og ákvað því að líta við á bryggjunni og sjá hvort ekki væru nú einhverjir duggarar að landa. Það stóð heima, fullt við hvern krana og verið að hífa aflann upp á land. Ég ók sem leið lá út á enda bryggjunnar og sá þennan skemmtilega klakabunka og ákvað að smella af þessari mynd því um leið og ég sá þennan klakadrumb varð mér hugsað til æskuára minna á Ólafsfirði.

Nú er það mér á huldu af hverju mér varð hugsað um Ólafsfjörð þegar ég tók þessa mynd en frá Ólafsfirði á ég góðar minningar. Fyrir norðan hófst veiðimannsferillinn, með Olísstöng niðri á bryggju að húkka marhnúta og einstaka ufsa. Það kom jafnvel fyrir að einn og einn þorskur tók agnið og þá gat verið fjör. Á Ólafsfirði fór ég fyrst á skíði, fékk mín fyrstu spor saumuð í skrokkinn, drap næstum því barnunga systur mína sem svelgdist á brjóstsykursmola, sá strák í fyrsta sinn með rautt hár, hrækti í andlit manns sem seldi hjólið sem ég hafði augastað á, lék minn fyrsta knattspyrnuleik að ég held og stýrði í fyrsta sinn vélsleða. Þessi sami vélsleði skildi eftir sig sex spor við vinstra gagnaugað hjá mér og þykir mér afar vænt um þetta ör enda eru menn með ör í andlitinu karlmenn að meiru en þeir örvalausu.

Upptalningunni frá Ólafsfirði er enn ekki lokið því þar uppgötvaði ég orð, nýtt orð í íslenska málinu en það er orðið FRÆNDASKAUP. Já lesendur góðir ég á orð! Frændaskaup varð til þegar ég mismælti mig við mæta hársnyrtikonu í bænum en meiningin átti að vera ættarmót. Eins og gefur að skilja hefur þetta orð líkast til fæðst skömmu eftir áramótaskaupið annars er ég ekki viss því það var alltaf snjór á Ólafsfirði og því ómögulegt að segja hvort þetta hafi verið skömmu eftir áramót eða hreinlega að sumri til.

Stöku sinnum kemur það fyrir að ég sé fólk frá Ólafsfirði bregða fyrir en einhvern veginn kann maður ekki við það að vinda sér upp að því og segja frá því hversu dásamlegur tími manns hefði verið þarna fyrir 20 árum. Furðufugl!

Enn í dag á ég nú samt nokkra vini þaðan og er vel en mér er það minnisstætt hvað sat eftir í bæjarbúum á Ólafsfirði þegar ég fór þaðan. Það voru hlutir eða athafnir eins og þegar ég hrækti á afgreiðslumanninn í hjólabúðinni eða stóð úti á stétt og hrækti á gangandi vegfarendur þegar ég var eitthvað ósáttur. Merkilegt hvað fólk vill muna það sem miður fer : )

Annars var ég líka vel stilltur á köflum þarna fyrir norðan og lærði að meta tímalausa klassík á borð við The Neverending Story, kvikmyndina með rónaöskrinu í lukkudrekanum og fyrstu ástinni minni, stelpuna sem lék drottninguna í myndinni, sú var sykursæt, í minningunni.

Ólafsfjörður ber ekki sama dýrðarljómann yfir sér í dag og bærinn hefur stórlega látið á sjá síðustu 20 ár og kenni ég þar stjórnvöldum um enda vart annað hægt. Hvernig væri nú að flytja eitthvert ráðuneytið út á land, þó ekki væri nema í Borgarnes. Í það minnsta þarf ríkisstjórn þessa lands að íhuga það alvarlega hvort það vilji að Ísland verði ein lítil borg á heimsmælikvarða og þeir sem kjósi að búa úti á landi geti bara étið það sem úti frýs. Göng í gegnum fjöll og undir heiðar eru engin lausn, fólk þarf á atvinnu að halda og hana er vísast ekki að fá á hverju strái í plássum eins og Ólafsfirði. Því miður.

Ótrúlegt hvað ein mynd getur komið manni á flug.

Góðar stundir
Jón Björn

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Það er aldeilis að munnvatnið hefur fengið að ferðast hjá þér drengur, en hræktir þú einnig á þennan rauðhærða, eða var hann einn af fáum sem slapp?

9:56 PM  
Anonymous Anonymous said...

Sá rauðhærði slapp en margir aðrir bæjarbúar voru ekki jafn heppnir!
Jón Björn

11:13 PM  

Post a Comment

<< Home