2012

Tuesday, August 26, 2008

Óheppileg tímasetning!

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik á við ramman reip að draga annað kvöld þegar það mætir svissneska landsliðinu í Evrópukeppni B-deildar. Leikurinn hefst kl. 19:15 en um svipað leyti hafa Hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti íslenska lýðveldisins og Frú Þorgerður Katrín Gunnardóttir mennta- og íþróttamálaráðherra boðað til þjóðhátíðar. Tilefnið er engum dulið en fögnuður í formi mótttöku á silfurhetjum þjóðarinnar frá Ólympíuleikunum hefst kl. 18:00 að Hlemmi.

Kvennalandsliðinu í körfuknattleiks veItir svo sannarlega ekki af stuðningi sem flestra en að mér læðist sá grunur að margir þeir sem ætluðu sér á leikinn fari frekar niður í bæ að fagna silfurhetjunum og er það bara vel. Ekki á hverjum degi sem við vinnum silfur í handbolta á Ólympíuleikum. Það er bara vonandi stelpnanna vegna að hátíðarhöldin standi ekki yfir mikið lengur en klukkustund og svo geta allir haldið landsliðsgleðinni áfram með því að mæta á Ásvelli í Hafnarfirði og styðja stelpurnar til sigurs : )

Býst þó við því að þetta taki aðeins meira en klukkutíma að fagna handboltahetjunum. Vonandi verðum við ekki heimsmeistarar í kvennakanttspyrnu þegar næsti landsleikur kvennakörfuboltaliðsins fer fram hér á landi!

JBÓ

Sunday, August 24, 2008

Allur vindur úr manni

Það er ekki laust við að maður sé eftir sig nú þegar silfurverðlaun íslenska handboltaliðsins eru í höfn. Við Hilma fórum í brúðkaup á laugardagskvöldið og svo vakin snemma til að fara í handboltapartý hjá Stínu tengdó. Strákarnir okkar áttu aldrei séns í Frakkana en þetta var engu að síður magnað hjá þeim. Þá verður virkilega gaman að fylgjast með því þegar liðið kemur heim og sjá hvernig mótttökur þeir munu fá.

Eftir leik var allur vindur úr manni og maður er búinn að vera vakandi sofandi í allan dag. Óvenjulegt að vakna svona snemma á sunnudegi en mér segir svo hugur að þegar litli erfinginn kemur í heiminn þá verður örugglega einhver breyting á klukkunni hjá manni : )

Thursday, August 14, 2008

Spenntur fyrir hjólastólaruðningi

Þá er þetta allt farið að opnast fyrir manni. Íslendingar segja nú margir sögur sínar frá Peking þeir sem keppa þar eða fjalla um Ólympíuleikana og ferð okkar hjá Íþróttasambandi fatlaðra tekur stöðugt á sig nýja mynd. Við leggjum af stað 1. september og opnunarhátíð Ólympíumótsins fer fram þann 6. september næstkomandi.

Margir ruglast oft á þessum orðum, Ólympíuleikar og Ólympíumót. Það er heiðursmannasamkomulag millum þessara fylkinga að einvörðungu Ólympíuleikarnir beri sitt nafn og því fékk íþróttakeppni fatlaðra nafnið Ólympíumót. Í þriðja stað kemur Special Olympics sem er Ólympíumót þroskaheftra. Alls ekki svo flókið fyrir þjálfað auga starfsmann íþróttahreyfingar fatlaðra en fyrir hinn venjulega leikmann gæti þetta reynst þrautinni þyngra að muna. Eins er Íþróttasamband fatlaðra jafnan kallað Íþróttafélaga fatlaðra en það er aðeins til eitt Íþróttafélag fatlaðra og það er félagslið, þetta er sambærilegt og að ruglast á KR og KSÍ í fótboltanum.

Eitt sem hefur fangað athygli mína undanfarið er hjólastólaruðningur og verður keppt í þeirri grein á Ólympíumóti fatlaðra. Þar er engin miskunn eins og sést á þessu myndbandi:

http://www.youtube.com/watch?v=eKlmviAqMOc&feature=related

JBÓ

Monday, August 04, 2008

Styttist í Peking

Ja hérna, nú styttist óðfluga í Ólympíumót fatlaðra sem hefst nánast strax að Ólympíuleikunum loknum í Peking. Ólympíumótið fer fram dagana 6.-17. september næstkomandi og verður á sama stað og Ólympíuleikarnir. Þar verð ég með í för hjá Íþróttasambandi fatlaðra og ekki laust við að maður sé orðinn nokkuð spenntur!

Ég fer út 1. september og kem aftur heim 18. september svo þetta er ferðalag í stærri kantinum. Mín bíða líka nokkrar vel valdar sprautur hér á spítala einum áður en ég get farið út. Þetta eiga að vera allskonar lyf og lyfleisur við hvaða pest sem kann að finnast í Kína. Mér finnst þessi mengunarmál þó vera stærsta pestin þarna úti, það sést vart á milli bygginga þarna í borginni en Kínverjarnir lofa bót og betrun.

Þessi mynd er af aðalleikvanginum á Ólympíuhátíðinni í ár og heitir hann Birdsnest. Enda keimlíkt fuglshreiðri. Þeir í Kína hafa ekki verið auðveldir í öllum þessum skráningarmálum og hverjum keppanda, þjálfara eða umsjónarmanni fylgja þvílíkar skriffinnskur að annað eins hefur vart sést. Kínverjarnir hafa þó verið duglegir að hafa þetta rafrænt svo eitthvað eru þeir að reyna að vera umhverfisvænir.

Ég ætla að vera duglegur að bomba hérna inn myndum og pistlum þegar út er komið og kannski áður en ég fer verð ég búinn að sýna ykkur meira frá þessu gríðarlega fyrirtæki sem Ólympíuleikarnir og Ólympíumótin eru.

JBÓ