2012

Friday, March 27, 2009

Rottan

Svakaleg gósentíð er í kannabisáhlaupi lögreglunnar um þessar mundir. Fyrir skemmstu fóru að berast fregnir af því að lögreglan væri að gera upptækar kannabisverksmiðjur og nú hefur hún gert upptækar um 6000 kannabisplöntur. Þeir svörtu og hvítu hafa einhvers staðar dottið í lukkupottinn. Þeir hafa handtekið einhverja auma sál sem var að rækta 2-3 plöntur heima hjá sér og nú lekur þessi aðili öllu í lögguna sem á mettíma hefur eyðilagt helstu útflutningsvon Íslands í efnahagsmyrkrinu.

Ég sé rottuna alveg fyrir mér biðja um camel filterslausan í yfirheyrslum og þegar Geirjón sjónvarpslögga neitar rottunni um camelinn af trúarlegum ástæðum þá brotnar rottan saman og byrjar að þylja upp heimilisföng. Í forvitni sinni rambar lögreglan á staðina sem rottan missti út úr sér í örvinlan og viti menn, fullt hús af ganja!

Ég veit um nokkra sem myndu ekki þola yfirheyrslu mikið lengur hálfa mínútu. Þið vitið hver þið eruð... já, rotturnar ykkar : )
JB

Thursday, March 26, 2009

Gluggaveður

Síðustu daga hefur verið hreint stórbrotið að stara út um gluggan. Heiðblár himinn og golffiðringurinn gerir vart við sig. Undirritaður gerir á þessum tíma ávallt sömu mistök!

Hugurinn reikar inn í sumarið og klæðaburðurinn eftir því léttur. Þegar út er komið blasir við allt annar raunveruleiki. Upplitsdjarfur maðurinn brýtur næstum því í sér tennurnar er þær skella saman út af nístingskulda og eftir nokkra svona daga í röð stendur maður uppi með flösu, tóma rakakremstúpu og helaumar geirvörtur því þær reyna næstum því að flýja inn í brjóstkassann á manni þegar út er komið.

Gluggaveður...einhver mesta ógn heilsunnar. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er góðvinur minn Birnir Sær Björnsson líka að drepast í geirvörtunum en það er af því að hann rennir sér alltaf á maganum í rennibrautinni í Laugardal!

JB

Wednesday, March 25, 2009

Vefsíða dagsins

Nýverið fékk ég himnasendingu http://www.atdhe.net/

Þessi vefsíða býður upp á beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum sem og nýjustu þættina í sjónvarpinu. Gæðin eru ekkert til að hrópa húrra fyrir á tímum flatskjáa og margmilljónkróna heimabíókerfa en þetta er töluvert ódýrara en áskriftarsjónvarp eða gervihnattadiskur.

Fyrir þá sem hafa t.d. gaman af Heroes (eins og ég) þá er 20. þáttur í þriðju seríu kominn í loftið á þessari ágætu síðu. Þar er allt að verða vitlaust!

Friday, March 20, 2009

60 metrar á 8,90 sek

Heimsmetið hjá Jamaíkumanninum Usain Bolt í 100m. hlaupi er 9,72 sek! Ég ákvað að taka símann með mér í ræktina áðan og taka tímann á mér í 60m. hlaupi. Niðurstaðan var 8,90 sek. Þarna hafði ég minna en eina sekúndu til að hlaupa 40 metra til þess að slá heimsmetið.

Þetta var tilraun dagsins og vel til þess fallin til að átta sig á því hversu ruuusalegur hlaupari Usain Bolt er í raun og veru. Ég ætla að mæla tímann minn í 60m. hlaupi aftur í næstu viku og þá er markmiðið 8,50 sek.

Wednesday, March 18, 2009

Ljós punktur á dapurri niðurstöðu

Njarðvíkingar, mínir menn í körfuboltanum, eru komnir í sumarfrí þetta árið, því miður. Það sem verra er, Keflvíkingar sendu okkur í sumarfrí. Það er ekkert jafn fúlt og að liggja fyrir Keflavík enda slagsmál þessara liða í gegnum tíðina sætasta konfektið í körfuboltakonfektkassanum. Þó verð ég að viðurkenna að snillingur í appelsínugulum spandexgalla bjargaði tímabilinu, ef svo má að orði komast.

Kappinn mætti á leik nr. 2 hjá Njarðvík og Keflavík í úrslitakeppninni íklæddur þessum forláta galla og viti menn... snillingurinn var fenginn til þess að taka borgarskot Iceland Express og hann hitti... ja hérna.

Þetta var vissulega ljós punktur á dapurri niðurstöðu fyrir Njarðvíkinga en samt var þetta eitthvað svo súrsætt því þessi appelsínuguli snillingur er... úff... Keflvíkingur!


JB

Tuesday, March 17, 2009

Greyið hann Sigurður

Sigurður greyið er kominn aftur inn í Idol Stjörnuleitina! Fyrir þá sem sáu þennan atburð á Stöð 2 síðasta föstudag var þetta nokkuð hjákátleg uppákoma. Simmi og Jói ásamt dómurunum í keppninni urðu í þrígang að hafna Sigurði og var kappinn orðinn nokkuð ringlaður í lok þáttar.

Nú er Sigurður kominn inn í keppnina því æðstu máttarvöld Idolsins hafa miskunnað sig yfir hann. Ef ég hefði verið Siggi greyið þá hefði ég hafnað þessu boði, stofnað band sem heitir Death to Idol og byrjað ekki seinna en í gær að túra og láta öllum illum látum. Það hefði selt mun betur heldur en að halda áfram í Idolinu og detta út í næstu umferðum... en greyið Siggi býður þjóðinni upp á að hafna sér enn eina ferðina. Ég hefði keypt disk með Death to Idol!

Já, greyið Siggi að grípa ekki gæsina.
JB

Friday, March 13, 2009

Fésbók

Fésbók!
Tímaþjófur eða bylting í samskiptatækni?
Í mínu tilfelli = tímaþjófur.

Ég get ekki sagt að samskiptin sem ég stend í á Fésbók séu af eftirsóknarverðum meiði. Síður en svo. Á Fésbók er maður jafnan að bauna einhverju á félaga sína, svarandi könnunum og skoðandi myndir af fólki sem maður hittir kannski 2-3 sinnum á ári. Þarna hef ég átt hrókasamræður við fólk sem ég hef ekki einu sinni hitt á árinu 2009. Þegar svo áðurnefndum samskiptum lýkur hvað stendur þá eftir? Jú, sú staðreynd að maður er enn ekki búinn að hitta viðkomandi og hefur eflaust mun fleira við hann að segja en maður nennir að koma að á lyklaborði Fésbókar.

Ég er háður Fésbók. Mér líkar það illa en á Fésbók getur maður fylgst vel með öllu, þ.e. öllu því sem er framundan. Fólk auglýsir viðburði, hluti til sölu, stuðningi sínum við hina og þessa og mótmælir því sem miður er og allt þar fram eftir götum. Á Fésbók eru sumir að kveikja ástarblossa og er það vel en svo koma snillingarnir eins og Breti einn sem missti vinnu sína um daginn. Hringdi sig inn veikann en statusinn hans á Fésbók sagði að kappinn hefði verið á djamminu, snillingur. Sumum er ekki treystandi fyrir tækninni en á meðan þú lesandi góður varst að lesa þennan miður góða pistil minn þá hefðir þú getað skoðað fjölda mynda, sent fjölda skilaboða og gert allt milli himins og jarðar á Fésbók, af hverju ert þú ekki þar núna?

Góðar stundir
JB

Wednesday, March 11, 2009

She´s back!

Britney Spears svíkur engan. Í endurkomu sinni í Louisiana bauð hún upp á þessa mögnuðu glennu og viti menn... fréttin er ein sú mest lesna á Vísir.is í dag. Skyldi nokkurn undra? Leðurpjatlan sem hylur leyndardóminn er þó helst til of strekkt... en hey, hver er að spá í því, þetta er Britney!

Nú þegar heimurinn rambar á barmi gjaldþrots hefur þessi snúlla selt 1,3 milljónir eintaka af nýjustu plötunni sinni... það sýnir kannski best að þótt kreppan éti marga út á gaddinn þá er það Britney sem á hug og hjörtu heimsins. Fjölbreytni er krafa sem fjölmiðlar vinna undir og Britneyfréttir lesast vel en að tónlistin hennar skuli seljast vel segir manni aðeins eitt. ÞAÐ ER ENGIN LEIÐ ÚT ÚR KREPPUNNI! Ef fólk er að eyða peningunum sínum í þessa froðu þá eigum við bara skilið að vera í kreppu til eilífðarnóns.

Góðar stundir
JB

Tuesday, March 10, 2009

Að verða 5 mánaða gömul

Að eiga næstum því 5 mánaða gamla dóttur er góð skemmtun! Hólmfríður Eyja er farin að snúa sér yfir á magann og þegar þangað er komið kárnar gamanið því henni finnst fátt jafn erfitt og leiðinlegt að liggja á maganum. Stundum líður mér þannig! Stundum líður mér eins og ég liggji á maganum og geti mig hvergi hrært þegar litla daman lítur á mig með stóru bláu augun sín og heimtar að fá mjólk. Ég viðurkenni að ég er ekki í mínu besta líkamlega atgervi en seint færi ég að láta hana á karlabrjóstin mín svo enn um sinn er Hilma einvaldur á heimilinu en það breytist þegar ég fæ að stappa gulrætur og annað lostæti ofan í Eyju. Þangað til pækla ég bara mínar tunnur, á maganum, og læt mér það vel líka enda vart annað hægt þegar sú stutta sprettur fram með jafn miklum tilþrifum.

Annars er heljarinnar helgi framundan, 15 ára fermingarafmæli þar sem dagurinn verður tekinn snemma í grannaglímu við Keflvíkingana í 1980 árganginum. Körfubolti í Yankee-Stadium kl. 11:00 á laugardagsmorgun. Frítt inn en áhorfendur verða rukkaðir um 50 kr. fyrir hverja troðslu sem þeir sjá : )

JB
(Mynd: Litla daman er líka komin með lúkkið á hreint! Hvern fjandann ertu að mynda mig í sturtu þarna kall)