2012

Wednesday, June 30, 2010

Það má alltaf finna ljós í myrkrinu

Í gær fékk ég það vandasama verkefni að greina þremur ungmennum frá því að ekkert yrði úr fyrirhugaðri ferð þeirra til Frakklands næsta laugardag. Fransmenn frestuðu verkefninu fram á næsta ár, tilkynntu mér það svona korter í brottför, smekklegt.

Ungmennin brugðust ágætlega við að ég tel, voru kát yfir því að vera áfram í verkefninu á næsta ári vona ég. Það verður s.s. ekki skrifaður nýr ferðakafli í sögu Jóns Ólafssonar þennan júlímánuðinn.

Það má svo ávallt finna smá ljós í myrkrinu, við frestun Frakklandsferðarinnar kemst ég á meistaramót GVS - golf næstu fjóra daga í röð.

JB

Tuesday, June 29, 2010

Heimaslóðir Loðvíks og Napoleons handan við hornið


Á laugardag verður skrifaður nýr kafli í ævisögu Jóns Ólafssonar, Frakkaland skal sótt heim og það í fyrsta sinn á mínum 30 árum hér á móður jörð. Nú verður kannað í þaula hvernig gárungar á borð við Loðvík sextánda og Napoleon höfðu það er þeir riðu um héruð og tíunduðu samlanda sína vinstri hægri.

Lendi í París á laugardag og þaðan er fjögurra tíma lestarferð niður til Bordeaux þar sem við verðum næstu 10 dagana en þetta er verkefni á vegum Íþróttasambands fatlaðra.

Í gær staðfesti wunderground.com svo grun minn - hitinn fer ekki undir 22°C allan tímann sem við verðum úti og albinóinn skelfur! Vörn nr. 30 og ekkert múður, strangur B-vítamín kúr og þá ætti ég að geta snúið vörn í sókn gegn gula bastarðinum og moskítóflugunum.

Svo skilst mér að það sé eitthvað framleitt af rauðvíni þarna á svæðinu... en það má víst ekki í íþróttaferð... tja nema KSÍ láni mér greiðslukortið sitt.

JB
(fékk þessa mynd senda frá skipuleggjendum verkefnisins í Frakklandi)

Sunday, June 27, 2010

Morfíslínur Árna á Stöð 2

DV um stjórnmálaumræðu og orð Árna Páls félagsmálaráðherra á Stöð 2 í kvöld:
http://www.dv.is/frettir/2010/6/26/arni-pall-sjalfstaedisflokkurinn-einangradur-ofga-haegriflokkur/

Þessi frétt sló mig ekkert nema ef vera skyldi fyrir þessa dýru línu sem Árni kastaði fram: ...að flokkurinn óttaðist lýðræðislegan vilja þjóðarinnar í þessu máli."

Þ.e.a.s. að Sjálfstæðisflokkurinn óttaðist lýðræðislegan vilja þjóðarninnar í Evrópusambandsaðildinni... - Ég veit ekki betur en að aðildin hafi verið felld í hverri einustu skoðannakönnun sem framkvæmd hefur verið hérlendis! Annars kemur það mér ekkert á óvart að stjórnmálamaður beiti svona línu fyrir sig enda eru þeir ekki þekkir fyrir að þurfa rökstuðning í sínu máli, þeirra vinna virðist vera ein samfelld Morfískeppni, rökum eða staðreyndum óháð.

ESBaðild er ólýðræðisleg og ekki í anda forvera okkar sem börðust af harðfylgi fyrir því að gera Ísland að sjálfstæðri þjóð... Árna Páli er alveg sama um það - hann vill bara komast á spenann. Það er miklu auðveldara heldur en að glíma við vandann.

JB

Thursday, June 24, 2010

Lefty með 9 punda hrygnu

Fyrstu veiðiferð sumarsins lokið. Ein myndarleg 9 punda hrygna kom á land, þar var á ferðinni Birnir Sær Björnsson með tvíhenduna. Undirritaður kom tómhentur heim... reyndar BB King líka þar sem hrygnunni var gefið líf og eftir á að hyggja voru það stórkostleg mistök. Gaman samt að fylgjast með viðureigninni og sá örvhenti var afar kátur svo vægt sé til orða tekið.

Eystri-Rangá var nokkuð lituð í gær en við sem veiðum svo sjaldan hefðum kastað í hana þrátt fyrir að búið væri að parketleggja ánna!

JB

Monday, June 21, 2010

Smjörvi í matinn

Yngsti fjölskyldumeðlimurinn, Hólmfríður Eyja, var illa fyrirkölluð eftir langan dag á dagheimilinu þennan daginn. Framan af var hún þó nokkuð spræk en þegar líða tók að kvöldmat seig á ógæfuhliðina. Loks kom maturinn á borðið en gráturinn var hafinn og bleikjan og kartöflurnar fóru niður í ekkasogum.

Þegar sú stutta var langt komin með matinn sinn sá hún okkur móður sína setja smjör á matinn. Drottningin fékk smjörvastykkið í sínar hendur og upp hófst þá einhver furðulegasta athöfn í matarsögu barnsins. Daman tók til hendinni og gúffaði heilu fjöllunum af smjöri í sig... með ekkasogum.

Smjörhnífurinn sjálfur þótti ekki bera nægilegt magn af hnossgætinu svo vinstri hendin var notuð líka til að klóra upp klípurnar og hesthúsa þeim eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Héðan í frá á ég svona síður von á því að tefla fram smjörvanum í næstu matmálstímum því í augum Eyju er þetta eitthvert mesta lostæti sem til er ef frá eru taldar súkkulaðikökur.

JB

Narfeyringur: Móðir allra borgara

Þjóðhátíðardagurinn var haldinn hátíðlegur í Stykkishólmi þetta árið, heimabæ Íslands- og bikarmeistara Snæfells í körfuknattleik. Hólmfríður Eyja Jónsdóttir var síður en svo að hata bæjarstæðið og ekki er laust við að fullorðna fólkið í ferðinni hafi tekið smá ástfóstri við bæinn. Rólegt og friðsælt yfir bænum allan tímann, látlaus 17. júní og þægilega fámennt á ferli.

Vitaskuld var tekin ein ferð á Narfeyrarstofu og undirritaður pantaði einn Narfeyring, þykkur borgari með beikoni, hvítlauk og gráðosti. Móðir allra borgara! Skyldupöntun fyrir þá sem hyggja á ferð í Hólminn.

Á föstudeginum var Golfmót körfuboltamanna, aðeins 31 punktur að þessu sinni en brakandi blíða og albínóinn brann lítið eitt... þrátt fyrir að vera makaður í vörn 30, prufa 50 næst. Skemmtilegur 9 holu völlur í Hólminum og maður hefði nú svo sem getað afgreitt þetta mót betur en segjum að hælsæri hafi verið um að kenna... já, hælsæri, það hljómar vel í þetta skiptið!

JB

Wednesday, June 16, 2010

Sárt að ESB sé til umræðu


Þýska þingið setur það skilyrði fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu að Íslendingar hætti hvalveiðum.

Ofangreint er setning úr frétt á MBL.is.
Hvar skal byrja?
-Þýskaland hefur ekki skilning á fiskveiðum og heldur ekki skilning á þeim skaða sem hvalastofninn getur valdið nytjastofninum.
-Aðeins brotabrot af Þýskalandi liggur að sjó.
-Af hverju ekki að veiða hvali? Þeir nálgast nú 100.000 stykki í íslenskri fiskveiðilögsögu og þau dýr sem veidd eru á ári hverju ná ekki þriggja stafa tölu.
-Af hverju ætti ein fremsta fiskveiðiþjóð heims að fella sig undir fiskveiðistefnu Evrópusambandsins þegar sú stefna er aðeins til þess fallin að þurrka upp íslensk fiskimið?
-Svo er ESB brölt ríkisstjórnarinnar til háborinnar skammar. Komi til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið verður það kolfellt, örugglega með 70% meirihluta.
-Fjármunum okkar á ekki að verja í að kanna þá möguleika hvort hentugt eða rekstrarlega hagkvæmt sé að láta evrópska-lobbýista stjórna okkur af meginlandinu.

Það er virkilega sárt að sjá að þessi mál skuli vera uppi á borðinu á þessum viðsjáverðu tímum. Réttast væri að taka skref aftur á bak og hætta öllu tali um ESB og aðild að fjötrasambandinu. Á meðan landinu blæðir í ólgusjó og hákarlarnir synda hringi um blóðrákina þá heldur kostnaðarsöm vinna áfram í kringum ESB. Þetta háttarlag yfirvalda og aðgerðaleysi þeirra verður núverandi einstaklingum á þingi til ævarandi skammar.

JB

ps. við erum líka í náðinni hjá Kínverjum og þá getum við veitt eins mikið af hval og við viljum.

Tuesday, June 15, 2010

Hólmurinn heillar

Þjóðhátíðardeginum 17. júní verður varið í Stykkishólmi að þessu sinni. Hólmurinn heillar eins og segir í laginu og litla familían verður með góðum vinum í nettu sumarhúsi alla helgina í Stykkishólmi.

Undirritaður fer svo í golfmót körfuboltamanna á föstudeginum þar sem stefnan er vitanlega sett á sigur, hvað annað!

Forvitnilegt verður að sjá hvort runnið sé af Hólmurum eftir fagnaðarlætin síðustu vikur, mér skilst að fólk sé enn hálf „tipsy“ eftir Íslands- og bikarmeistaratitilinn þar á bæ.

JB

Sunday, June 13, 2010

Flúðum slagviðrið og sleiktum sólina

Þá er ferðalagið á enda... mættum í höfuðstað Norðurlands á föstudag og það var barkandi blíða allan tímann. Undirritaður smellti á sig sólarvörn nr. 30 og slapp við allan bruna í þetta skiptið. Það gerði ferðina svo enn ánægjulegri að vita til þess að grenjandi rigning og slagveður var á suð-vesturhorni landsins á meðan við vorum fyrir norðan : )

Litla fjölskyldan tók íbúð á leigu í miðbæ Akureyrar og átti dúndrandi góða helgi. Vorum tíðir gestir í sundlauginni og nærumhverfi hennar enda mikið af leiktækjum og nóg að gera fyrir 19 mánaða grallaraspóa.

Mæli svo sterklega með Indian Curry Hut á Akureyri.

JB

Friday, June 11, 2010

Halló Akureyri

Höfuðstaður Norðurlands er á málaskránni þessa helgina. Bikarmót Íþróttasambands fatlaðra laugardaginn 12. júní og vafalítið verður hart barist.

Mér finnst ég alltaf vera svolítið HEIMA á Akureyri. Bjó á Ólafsfirði, ættaður úr Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð og get enn beitt norðlenskunni fyrir mig til þess að villa á mér upprunaheimildir kalli aðstæður á svoleiðis útúrsnúninga.

Það verður flogið... hefði líkast til aldrei farið þetta akandi enda löngu búinn með minn kvóta í þeim efnum.

JB

Wednesday, June 09, 2010

Ferðalangurinn

Í júlíbyrjun held ég til Frakklands og nem þar land í fyrsta sinn. Vinnuferð hjá stráknum sem flýgur út eldsnemma um morguninn og fer svo í fjögurra tíma lestarferð. Jón Motion-Sickness Ólafsson er því afar spenntur fyrir laugardeginum 3. júlí og mun verja restinni af júnímánuði í undirbúning fyrir ferðalagið.

-Tek spinningtíma í gufubaði
-Borða bara hundasúrur
-Sef á steingólfi með pan-pipes tónlist í gangi yfir nóttina

Þetta eru bara nauðsynlegar aðgerðir fyrir mann sem ældi eftir rútuferð frá Ljónagryfjunni og upp í Breiðholt!

JB

Tuesday, June 08, 2010

(M)amma Rósa 50 ára


Í dag, 8. júní 2010, er móðir mín 50 ára gömul! Til hamingju með afmælið elsku mamma. Ekki er svo að skilja að móðurhlutverkinu sé lokið, því fer fjarri nú þegar Rósa Ingvarsdóttir er orðin amma eins og sést á meðfylgjandi mynd. Hér eru þær Eyja önnum kafnar við lestur og verða vísast í rjúkandi stuði í afmælisveislunni í dag. Ég hef bara eitt heilræði handa þér mamma mín á þessum merkisdegi þínum:

Við hættum ekki að leika okkur þegar við eldumst, við eldumst þegar við hættum að leika okkur.

Innilega til hamingju með daginn (M)amma Rósa

JBÓ

Wednesday, June 02, 2010

Endurvekjum Sjómannadaginn um land allt


Næstkomandi sunnudag þann 6. júní er Sjómannadagurinn. Sú var tíðin að á Sjómannadaginn varð allt vitlaust, fólk gerðist prúðbúið og tók þátt í hátíðarhöldum. Sem barn upplifði maður sína fyrstu Sjómannadaga við Njarðvíkurhöfn og síðar færðist hátíðin yfir í Keflavíkurhöfn og bæjarfélögin héldu sameiginlega upp á daginn. Enn síðar lögðust þessi hátíðarhöld af og hafa enn ekki verið endurvakin undir fánum sameinaðs Sveitarfélags Njarðvíkur, Keflavíkur og Hafna sem í daglegu tali nefnist Reykjanesbær.

Grindvíkingar halda daginn hátíðlegan og nefna Sjómannadaginn sinn fjölskylduhátíðina Sjóarinn Síkáti. Íburðamikil hátíð hjá Grindvíkingum og mikið um að vera í bæjarfélaginu á meðan hátíðinni stendur.

Í dag er Sjómannadagurinn orðinn að fjölskylduhátíð og margir hverjir af þeim sem dagurinn er tileinkaður eru samt á sjó þennan dag sinn. Í mörgum kaupstöðum og öðrum sjávarplássum utan Reykjavíkur hefur sjómannadagurinn orðið mesta hátíð ársins á eftir jólum. Ekki í Reykjanesbæ, eiginlega hvergi nema í Grindavík nú til dags. Önnur sveitarfélög eru með Ljósanótt, Menningarnótt, Færeyska daga, Mærudaga, Humarhátíð, Þjóðhátið, Goslokahátíð, Sandgerðisdaga og þar fram eftir götum. Allt upptalið skipar miklu miklu stærri sess hjá sveitarfélögunum heldur en nokkurn tíman Sjómannadagurinn nema í Grindavík.

Þetta er allt mjög eðilegt í ljósi þróunarinnar, við fórum að líta á sjómennsku sem annars flokks atvinnugrein og í þriðja flokki lenti landvinnslan á aflanum. Allir fóru í skóla og fluttust á mölina (undirritaður er sekur um þá sviksemi). Viðskipti, verkfræði, læknisfræði og lögfræði urðu svarið við flest öllum framtíðardraumum ungmenna og víðsvegar um land lagðist Sjómannadagurinn af með tilstuðlan þeirra menntagæðinga sem ráku viðkomandi sveitar-/bæjarfélög.

Sjálfur kem ég af langri línu sjómanna og reyndi stuttlega fyrir mér á sjó þar sem ég eyddi meiri tíma í að sýna mávunum hvað ég hafði fengið mér í morgunmat en vinna þá vinnu sem lá fyrir hendi.

Ég vona að fleiri fylgi í fótspor Grindvíkinga og geri Sjómannadaginn hátíðlegan í sinni sveit því þrátt fyrir alla okka sviksemi í garð Ægis hafkonungs er það sjávarútvegurinn sem stendur eftir og er enn að skapa tekjur. Þær gætu vissulega verið meiri og dreifðari ef allar diplómurnar og meistaragráðurnar hefðu einhvern tíman farið á sjó í stað þess vega að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar með því að gefa nokkrum landráðamönnum bróðurpart kvótans en það er efni í aðra grein. Byrjum bara á því að endurvekja Sjómannadaginn um land allt.

JBÓ