Endurvekjum Sjómannadaginn um land allt

Næstkomandi sunnudag þann 6. júní er Sjómannadagurinn. Sú var tíðin að á Sjómannadaginn varð allt vitlaust, fólk gerðist prúðbúið og tók þátt í hátíðarhöldum. Sem barn upplifði maður sína fyrstu Sjómannadaga við Njarðvíkurhöfn og síðar færðist hátíðin yfir í Keflavíkurhöfn og bæjarfélögin héldu sameiginlega upp á daginn. Enn síðar lögðust þessi hátíðarhöld af og hafa enn ekki verið endurvakin undir fánum sameinaðs Sveitarfélags Njarðvíkur, Keflavíkur og Hafna sem í daglegu tali nefnist Reykjanesbær.
Grindvíkingar halda daginn hátíðlegan og nefna Sjómannadaginn sinn fjölskylduhátíðina Sjóarinn Síkáti. Íburðamikil hátíð hjá Grindvíkingum og mikið um að vera í bæjarfélaginu á meðan hátíðinni stendur.
Í dag er Sjómannadagurinn orðinn að fjölskylduhátíð og margir hverjir af þeim sem dagurinn er tileinkaður eru samt á sjó þennan dag sinn. Í mörgum kaupstöðum og öðrum sjávarplássum utan Reykjavíkur hefur sjómannadagurinn orðið mesta hátíð ársins á eftir jólum. Ekki í Reykjanesbæ, eiginlega hvergi nema í Grindavík nú til dags. Önnur sveitarfélög eru með Ljósanótt, Menningarnótt, Færeyska daga, Mærudaga, Humarhátíð, Þjóðhátið, Goslokahátíð, Sandgerðisdaga og þar fram eftir götum. Allt upptalið skipar miklu miklu stærri sess hjá sveitarfélögunum heldur en nokkurn tíman Sjómannadagurinn nema í Grindavík.
Þetta er allt mjög eðilegt í ljósi þróunarinnar, við fórum að líta á sjómennsku sem annars flokks atvinnugrein og í þriðja flokki lenti landvinnslan á aflanum. Allir fóru í skóla og fluttust á mölina (undirritaður er sekur um þá sviksemi). Viðskipti, verkfræði, læknisfræði og lögfræði urðu svarið við flest öllum framtíðardraumum ungmenna og víðsvegar um land lagðist Sjómannadagurinn af með tilstuðlan þeirra menntagæðinga sem ráku viðkomandi sveitar-/bæjarfélög.
Sjálfur kem ég af langri línu sjómanna og reyndi stuttlega fyrir mér á sjó þar sem ég eyddi meiri tíma í að sýna mávunum hvað ég hafði fengið mér í morgunmat en vinna þá vinnu sem lá fyrir hendi.
Ég vona að fleiri fylgi í fótspor Grindvíkinga og geri Sjómannadaginn hátíðlegan í sinni sveit því þrátt fyrir alla okka sviksemi í garð Ægis hafkonungs er það sjávarútvegurinn sem stendur eftir og er enn að skapa tekjur. Þær gætu vissulega verið meiri og dreifðari ef allar diplómurnar og meistaragráðurnar hefðu einhvern tíman farið á sjó í stað þess vega að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar með því að gefa nokkrum landráðamönnum bróðurpart kvótans en það er efni í aðra grein. Byrjum bara á því að endurvekja Sjómannadaginn um land allt.
JBÓ
1 Comments:
COME ON! Auðvitað er dagskrá í Sandy Hill!
Messa um morguninn, ball um kvöldið og frábær hátíðardagskrá á höfninni þar á milli!
Hilma Sandgerðingur
Post a Comment
<< Home