2012

Monday, August 23, 2010

Annar í brúðkaupsferð


Breiðafjörður, botnlaus matarkista sem við hjónin biðum spennt eftir að uppgötva í annarri brúðkaupsferð okkar. Ferðina fengum við í brúðargjöf frá foreldrum mínum 2007 þegar við giftum okkur og leystum hana út nú í sumar.

Spæling! Vont í sjóinn og við komumst ekki út í Flatey eins og til stóð, fórum aðeins út í Skáleyjar sem var flott en skipperinn á trillunni vildi ekki út í Flatey. Hvorugt okkar hefur komið þangað og eyjan því verri fyrir vikið frá mínum bæjardyrum séð.

Í heild var ferðin mögnuð, við rifum meðalaldurinn niður í 75 ár en skemmtum okkur engu að síður konunglega enda magnað umhverfi vestra. Svo komumst við í einstakt návígi við Haförn sem sveimaði um 15-20 metra fyrir ofan okkur, fundum hreiðrið hans en hættum okkur ekki nærri með Hafarnarmömmuna í vígahug fyrir ofan.

Bændurnir á Stað í Reykhólasveit fá svo þakkir og hrós frá okkur hjónum en þau ráku augun í það augljósa... adrenalínið flæddi ekki beint í stríðum straumum í ferðinni. Þetta sáu bændurnir og buðu okkur fjórhjólin á bænum til afnota þegar gamalmennin höfðu haldið í Bjarkarlund til hvílu. Mögnuð upplifun og hjóluðum við þarna um túnin á Stað og áðum við fossasprænu í fjallinu ofan við bæinn.

Stórkostlegt ferðalag í alla staði og mæli ég sterklega með því að fólk fari sem oftast í second, third og fourth brúðkaupsferðir og jafnvel fleiri. Þá er sveitabærinn Staður í Reykhólasveit vel þess virði að heimsækja!

JB

0 Comments:

Post a Comment

<< Home