2012

Thursday, September 23, 2010

Golfið á hilluna... hvað skal gera við tímann?

Veiðisumrinu 2010 er lokið! Handfylli af löxum á land, þokkalegt bara sé tekið mið af fáum veiðidögum en úr því verður rækilega bætt næsta sumar og þegar er búið að festa eina helgarveiði 2011. Eftir því sem aldurinn færist yfir sér maður betur og betur hvar sterku hliðarnar liggja og hvar veiku punktarnir eru, í því ljósi hef ég ákveðið að leggja golfsettið alfarið á hilluna.

Eftir slælega frammistöðu á Spáni og miður gott lundarfar í kjölfarið var þessi ákvörðun tekin, ekki meira golf fyrr en í ellinni. Maður kemur aldrei fýldur frá árbakkanum svo það verður stangveiðin sem tekur nú við.

Þá er bara að hefjast handa og ráðstafa öllum tímanum sem fellur til við að segja skilið við golfið því þetta sport er viðbjóðslega tímafrekt. Hvað tekur þá við? Ekki getur maður staðið úti í á öllum stundum þó það væri óskandi enda kostar það lunga og lifur að veiða hérna.

Hugmyndir til að kanna við tíma sem losnar við stöðvun golfiðkunar:

-Heimildarmynd um spillingu á Íslandi (festa cameru fyrir framan Alþingishúsið).
-Bókarskrif um siðgæðisvitund íslenskra presta.
-Ljósmyndabók um andstæður á Íslandi (forsíðumynd af Jóni Gnarr í borgarstjórastól).
-Skilja af hverju við getum framleitt mannlausa kafbáta en ekki rafmagnsbíla.
-Komast að því hvaða Suðurnesjamaður lagði Jónas eiturpenna Kristjánsson í einelti.
-Finna lykilinn að póstkassanum mínum.
-Uppgötva genið sem veldur einhverfu-enskubolta áhrifunum. (Leit hefst á íþróttmiðlum landsins).
-Splæsa saman DNA þráðum úr Andra Snæ og Tryggva Þór Herbertssyni, kanna útkomuna.
-Athuga hvort Karfan.is geti fengið ríkisábyrgð.
-Kanna hvort það sé öruggara að fá borgað svart og eyða peningunum í vændiskonur og eiturlyf heldur en að bramboltast við að vera gildur þjóðfélagsþegn í Íslandi nútímans.

JB

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Settu alla þína krafta í að finna lykilinn.

BB

1:37 PM  

Post a Comment

<< Home