2012

Monday, June 30, 2008

Eystri-Rangá gaf vel

Þrír fræknir ofurhugar stóðu á sunnudag á bökkum aflahæstu ár sumarsins 2007 og renndu fyrir lax. Ekki var lengi að bíða uns fyrsti laxinn datt í hús en það var sjálfur Birnir Sær Björnsson sem setti í myndarlega 10 punda hrygnu. Reyndar varð það eini almennilegi fiskur ferðarinnar og honum var komið haganlega fyrir í kistu nálægt tökustað. Hrygnan verður svo notuð í hrognakreistingu en eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi mynd leiddist ,,lefty” það ekki að fá jafn fagurskapaða skepnu á fluguna hjá sér.

Einn fiskur til viðbótar kom á land í ferðinni sem var ekki nema 3ja punda hrygna svo hollið kom ekki tómhent heim en áin gaf vel með þessari 10 punda hrygnu þó hún hafi ekki gefið mikið í þetta skipti.

Wednesday, June 25, 2008

Tímaeyðsla

Ég og góðvinur minn örvhenti Birnir Sær Björnsson álpuðumst í bíó seint í gærkvöldi. Eftir rosalegan dag í pallasmíðum við Haustakur ákváðum við að verðlauna sjálfa okkur og splæsa í bíóferð þrátt fyrir síhækkandi miðaverð og kíghósta krónunnar. The Happening varð fyrir valinu en hún er eftir hinn „dularfulla“ M. Night Shyamalan.

Við lok myndarinnar litum við Birnir á hvern annan og hlógum „Skarphéðinshlátri“ yfir þessum gríðarlegu vonbrigðum. Þvílík og önnur eins vitleysutilraun til þess að taka undir með Leonardo DiCaprio og öðrum stórstjörnum sem hafa tekið málstað móður náttúru.

Shyamalan hefur tekið allmörg spor afturábak síðan hann gerði The Sixth Sense. Á eftir henni kom Unbreakable, fremur slöpp. Þar næst var svo Signs sem var þó betri en Unbreakable en næsta mynd var The Village og svo kom Lady in the Water og þarnæst The Happening. Þvílík og önnur eins rússíbanareið af vitleysu. Kannski er hann helvíti snjall höfundur og leikstjóri á Bandaríkjamarkaði en maðurinn er ekki bara fyrirsjáanlegur heldur skín það í gegn að hann þykist vera svo snjall að það kemur út eins og hann sé sjálfumglaður.

Leikurinn í myndinni fær seint óskarsverðlaun en skilaboðin eru: Hættum að misþyrma plánetunni okkar!

Á skalanum 1-10 er þetta mynd upp á einkuninna: 3
(finnst ég meira að segja vera nokkuð vægur með þessa einkunn)

Mín skilaboð til þeirra sem hugsa sér að kíkja á þessa mynd:
Verjum tímanum okkar betur!

Tuesday, June 24, 2008

Haglél á miðju sumri

Um síðustu helgi skellti ég mér austur fyrir fjall og var viðstaddur 50 ára afmæli hjá Björgu móðursystur minni. Amma á bústað við Álftavatn og afmælisgestir hittust við Þrastarlund og nú átti að ganga í bústaðinn enda þessi leið gengin af fjölskyldumeðlimum frá ómunatíð. Lagt var af stað frá Reykjavík í blíðskaparveðri á laugardagsmorgni og rjómablíðan var ekki síðri þegar við komum í Þrastarlund. Fagnaðarfundir urðu á meðal fjölskyldumeðlima og loks var lagt af stað í gönguna.

Afmælisbarnið stjórnaði för en þegar um 10-15 mínútur voru liðnar af göngunni heyrðust þessar ógurlegu þrumur að ofan og á svipstundu varð allt kolmyrkvað. Um 30 manns litu til himins og nokkrum sekúndum síðar stóð hópurinn í miðri haglél. Allt um kring var heiðskýr himinn nema yfir þessum litla bletti. Það var undurfögur sjón en ótrúleg þó!

Þar sem við vorum aðeins búin með 1/3 af leiðinni þá blotnuðu sumarklæddir göngugarparnir í gegn. Einn göngumaðurinn hafði í góðviðrinu gert þau mistök að hafa með sér regnhlíf í ferðina og var honum vitaskuld kennt um ofankomuna.

Þegar hópurinn loks náði áfangastað voru margir orðnir þreyttir og gegnsósa eftir volkið. Afmælisbarnið hróflaði sig á hné og snéri sig á ökkla, börn með bláar varir þráðu ekkert heitar en að komast í bústaðinn og þegar þangað var komið… var ekki lengi að bíða eftir að haglinu slotaði.

Vitanlega var hart barist um þurrkarann í bústaðnum en veislugestir gerðust fáklæddir og gæddu sér á lambalærum og pylsum. Það verður seint sagt að Björg frænka sé ekki höfðingi heim að sækja og þetta verður fimmtugsafmæli sem lengi verður í minnum haft.

Til hamingju með afmæli frænka!

Jón Björn

Mynd 1: Björg og barnabörnin
Mynd 2: Mútta og Birna Rós

Wednesday, June 18, 2008

Barcelona að baki

Þá er Barcelonaferðin okkar að baki og heppnaðist hún með miklum ágætum. Reyndar var veðrið ekkert til þess að hrópa húrra fyrir en það komu góðir dagar. Annars vorum við lítið að spá í veðrinu heldur tókst okkur alveg að týnast í borginni og njóta þess að vera til. Kom nokkuð á óvart hvað þetta helsta svæði borgarinnar er lítið. Maður var ekki lengi að labba athyglisverðustu staðina á enda.

Hinsvegar kom það á óvart að Spánverjarnir eru ekkert voðalega sleipir við eldavélarnar. Við áttum í stökustu vandræðum með að finna öflugan veitingastað sem gladdi svanga ferðalanga en sumt var ágætt.

Vitaskuld litum við á alla helstu staðina og það væri ekki úr vegi að kíkja aftur til Barcelona árið 2025 en þá stefna þeir að því að vera búnir með La Sagrada Familía, kirkjuna sem hefur verið í byggingu síðan fyrir 1900. Rosalega sérstök en flott kirkja.

Látum hér nokkrar laufléttar fylgja ásamt smá myndbroti af Magic Fountain sem er soldið flottur.

Kveðja,

Jón Björn


Friday, June 06, 2008

Fyrstu vikunni í nýja starfinu að ljúka

Þá er fyrstu vinnuvikunni minni hjá Íþróttasambandi Fatlaðra við það að ljúka. Á morgun, laugardag, verður maður vappandi á milli tveggja móta á vegum sambandsins og svo er það bara Barcelona á mánudag.

Mér líst ofboðslega vel á nýja vinnustaðinn. Rétt hjá heimili mínu og í fyrsta sinn síðan í bæjarvinnunni gekk ég í vinnuna síðasta mánudag. Það var allt að því tímamótastund í mínu lífi þessi göngutúr. Vinnutíminn er líka flottur og hver veit nema mér takist að lækka forgjöfina í sumar á milli þess sem ég strýk bumbunni minni : )

Maður er orðinn soddann dúkur að einhverjir sáu sér þann kostinn vænstan að gera frétt um málið:



Ljúkum þessari vinnuviku með orðum Roy Rogers:

„Hér er ég kominn á áfangastað, Pési og þeir vita ekkert um það. Hér er planið það er ekki beisið, ég fer inn - þú umkringir pleisið."

Og munið að yougurt er skyrja!
(Kristinn R. Ólafsson)

Thursday, June 05, 2008

Barcelona á mánudag

Þá er komið að fyrstu fjölskylduferðinni okkar : )
Ég, Hilma og bumbubúinn förum til Barcelona á mánudag í langþráða afslöppun. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum http://www.wunderground.com/ verður heiðskýrt og 28 stiga hiti á mánudeginum svo maður ætti að koma vel brunninn heim.

Ég hef einu sinni áður komið til Barcelona og það var yfir helgi. Við pabbi fórum að sjá Börsunga leika á sínum magnaða Nou Camp eða Nývangi eins og vinur minn Kristinn R. Ólafsson myndi kalla þetta skrímsli af knattspyrnuvelli.

Tuesday, June 03, 2008

Nöturleg niðurstaða við Þverárfjallsveg

Íslenska þjóðin virðist ekki þreytast á vitleysunni í sjálfri sér. Nú þurftum við að fella hvítabjörn af nákvæmlega engri ástæðu en sú sem var opinberlega gefin var að hann hefði verið „hreyfanlegur“ og ef við eigum að halda áfram að fella dýr af þeim sökum þá endum við mannskepnan ein eftir á þessari jarðkringlu og nögum á okkur neglurnar uns við deyjum úr hor.

Hver tók þá ákvörðun að fella dýrið? „Ætli það hafi ekki verið yfirlögregluþjónninn," sagði Pétur.

Þetta svartletraða kemur fram á mbl.is í dag. Eigum við eitthvað að ræða þetta comment? Ætli það hafi ekki verið yfirlögregluþjónninn... ja hérna. Veit enginn neitt... er ekkert að frétta... hefur enginn tekið eftir því að hvítabjörninn er í bráðri útrýmingarhættu. Hefur engum dottið í hug að við búum á eyjum og eigum það á hættu að fá til okkar hvítabirni endrum og sinnum? Væri þá ekki nær að hafa deyfilyf eða svefnlyf í pílum sem hægt væri að skjóta í þessi dýr?

Þá er ekki til áætlun um á Íslandi hvernig eigi að bregðast við þegar hvítabirnir ganga á land! Það vantar viðbragðsáætlun við þessum gangi náttúrunnar! Halló, það er 2008. Hvað eru ráðamenn þjóðarinnar að baxa eða undirmenn þeirra í viðeigandi stofnunum - tja... við höfum nú gert upp á bak í fjármálum okkar svo það skal engan undra að okkur sé nákvæmlega sama um eitt stykki hvítabjörn, kannski einhverjir sem sjá pening í þessu.

Okkur er s.s. ekkert heilagt, sem er mjög miður! Ekki aðeins er vöntun hjá okkur á virðingu fyrir hverju öðru heldur almennt fyrir umhverfinu og því sem hugsanlega skiptir máli í einhverju samhengi.