Haglél á miðju sumri
Um síðustu helgi skellti ég mér austur fyrir fjall og var viðstaddur 50 ára afmæli hjá Björgu móðursystur minni. Amma á bústað við Álftavatn og afmælisgestir hittust við Þrastarlund og nú átti að ganga í bústaðinn enda þessi leið gengin af fjölskyldumeðlimum frá ómunatíð. Lagt var af stað frá Reykjavík í blíðskaparveðri á laugardagsmorgni og rjómablíðan var ekki síðri þegar við komum í Þrastarlund. Fagnaðarfundir urðu á meðal fjölskyldumeðlima og loks var lagt af stað í gönguna.Afmælisbarnið stjórnaði för en þegar um 10-15 mínútur voru liðnar af göngunni heyrðust þessar ógurlegu þrumur að ofan og á svipstundu varð allt kolmyrkvað. Um 30 manns litu til himins og nokkrum sekúndum síðar stóð hópurinn í miðri haglél. Allt um kring var heiðskýr himinn nema yfir þessum litla bletti. Það var undurfögur sjón en ótrúleg þó!
Þar sem við vorum aðeins búin með 1/3 af leiðinni þá blotnuðu sumarklæddir göngugarparnir í gegn. Einn göngumaðurinn hafði í góðviðrinu gert þau mistök að hafa með sér regnhlíf í ferðina og var honum vitaskuld kennt um ofankomuna.

Þegar hópurinn loks náði áfangastað voru margir orðnir þreyttir og gegnsósa eftir volkið. Afmælisbarnið hróflaði sig á hné og snéri sig á ökkla, börn með bláar varir þráðu ekkert heitar en að komast í bústaðinn og þegar þangað var komið… var ekki lengi að bíða eftir að haglinu slotaði.
Vitanlega var hart barist um þurrkarann í bústaðnum en veislugestir gerðust fáklæddir og gæddu sér á lambalærum og pylsum. Það verður seint sagt að Björg frænka sé ekki höfðingi heim að sækja og þetta verður fimmtugsafmæli sem lengi verður í minnum haft.
Til hamingju með afmæli frænka!
Jón Björn
Mynd 1: Björg og barnabörnin
Mynd 2: Mútta og Birna Rós


1 Comments:
Þetta var sko ævintýri..;)
ásdís systir
Post a Comment
<< Home