2012

Thursday, November 30, 2006

Jólaljósadýrð í Singapore


Þá erum við komin til Singapore. Við lentum í gær og þurftum að bíða í tvo klukkutíma eftir herbergjunum okkar sem lagðist ekkert allt of vel í hópinn sem fór á fætur sex um morguninn. Við komum okkur haganlega fyrir og tókum svo rölt um nánasta umhverfi í gærkvöldi. Búið er að tendra jólaljósin í Singapore og það er nokkuð mikilfengleg sjón, mun glæsilegri en fjöldaframleiddar stafrænar myndarellur geta kallað fram.

Í morgun skelltum við okkur í hótelsundlaugina og við Siggi tókum eina risaskák. Ekki salernisferð eins og sum ykkar myndu halda heldur alvöru skák við laugarbakkann. Taflmennirnir voru um 50 cm háir. Í fljótu bragði þá var ég mátaður, þurfti reyndar að segja Sigga frá því en mátaður engu að síður.

Nú erum við bara að slappa af uppi á hóteli og eigum pantað borð á veitingastað hér við höfnina. Á morgun förum við kannski í vatnsrennibrautagarð og þaðan á eyju hér skammt frá.

Þangað til næst
Jón Björn

Mynd: Dæmi um jólaglingrið hér í Singapore

Tuesday, November 28, 2006

Síðasta ástralska færslan...


Komið er að kveðjustund hér í Ástralíu og á miðvikudag, morgun, eigum við flug til Singapore þar sem við dveljum í fjórar nætur og þaðan mun leið okkar liggja beint heim á klakann. Þetta er búið að vera magnað ævintýri hérna ,,down under” og hver dagur hefur verið öðrum betri, fullir af fjöri og sól.

Síðasta upplifelsi okkar hérna í Fremantle var ferð til eyjunnar Rottnest þar sem ég, Hilma og Siggi fórum að snorkla við eyjuna. Þetta var bara eins og maður hefur svo margoft séð á póstkortum. Ljósgrænn sjór, skjannahvítar strendur og heiðskýr himinn. Paradís, eða hvað? Albínóar á borð við mig þurfa að vera löðrandi í sólarvörn að styrkleika 55 til þess að verða ekki gula kvikindinu að bráð. Löðrandi í sólarvörn eður ei var þetta tilkomumikil sjón og góður endir á frábæru ferðalagi okkar um Ástralíu.

Síðasta kvöldmáltíðin okkar í Ástralíu var með Kath og Dave, foreldrum Ingridar og systur Ingridar, Simone, og manni hennar Don, að ógleymdum syni þeirra Isaac. Við grilluðum okkur lax, pylsur, pulsur og rækjur, átum kjöt, drukkum öl og við skemmtum okkur vel, hægri hönd, vinstri hönd... Faðir Abraham

Vonandi tekst okkur að negla inn einni færslu frá Singapore einu stærsta hafnarsvæði heims og mesta lögreglufasistaríki veraldar. Veit ekki hvort það sé leyfilegt að vera með íslensk lyklaborð á fartölvum þarna en það má ekki vera með tyggjó á almannafæri í borginni og þeir hengja alla sem koma inn með eiturlyf. Mér skilst á áströlskum vinum okkar hérna, sem flestir hafa komið til Singapore, að það sé ekkert grín að lenda í yfirvöldum þar. Þeir bláklæddu munu víst vera harðari í horn að taka heldur en heima á Íslandi.

Ef þið smellið á þessa setningu getið þið skoðað hótelið sem við munum dvelja á í Singapore.

Svakalega flott hótel á aðalverslunargötunni en því miður getum við ekkert verslað þar sem allar töskur eru sneisafullar af áströlskum varningi. Svo eru Ástralar að agnúast út í okkur fyrir að slátra nokkrum hvölum, hér er allt vaðandi í kengúrafurðum hérna, spurning um að taka til í bakgarðinum hjá sér áður en þú færð magapínu heima hjá einhverjum öðrum.

Þangað til næst,
Jón Björn

Sunday, November 26, 2006

Skvísupartý, ævintýraleg bátsferð, out of towners partý og STÓRFENGLEGASTA BRÚÐKAUP EVER!


Þessa vika er búin að vera mjög fjölbreytt, skemmtileg og algjörlega ógleymanleg. Auðvitað voru allir vinir og fjölskyldumeðlimir Ingridar og Sam í bænum svo mikill tími fór í að mingla, kynnast, sýna sig og sjá aðra.

Á þriðjudaginn buðum við mamma öllum uppáhalds stelpunum hennar Ingridar í mat til okkar og vorum með gellumatarboð hér hjá okkur. Við erum náttúrulega sérstaklega góðar í því að gellast, búa til góðan mat og spjalla við aðrar konur þannig að uppskriftin að fullkomnu kvöldi var fullkomin. Enda var kvöldið æðislegt. Þarna voru saman komnar við mamma, Ingrid, systur Ingridar, Simone og Ursula og besta vinkona Ingridar. Liz. Liz hlaut þann heiður að vera yfirbrúðarmey í brúðkaupinu. Hún var líka önnum kafinn alla vikuna í því að halda í alla skipulagsspottana og aðstoða brúðina við að halda ró sinni. Ótrúlega skondin þessi brúðarmeyjahefð!! Mikið er ég fegin að við höfum ekki tekið hana upp í ameríkuseringunni okkar.

Á miðvikudeginum fórum við í bátsferðina sem við vorum búin að tala um. ÞVÍLÍK snilld. Ég get nú sagt ykkur það að við vorum ekkert yfir okkur spennt fyrir þessari ferð, ekki segja Bernie og Sue. Okkur fannst við vera búin að vera alltaf upptekin í fríinu okkar og langaði bara að fá að vera í friði. Jón Björn mótmælti líka hástöfum þar sem hann var nýbúinn að þjást af mikilli sjóveiki og stórkostlegum sólbruna. En sem betur fer fannst mér ég þurfa að vera kurteis og sagði við foreldra Louise að við værum öll rosalega spennt og vildum ólm koma með þeim í siglingu. Við fengum sjúklega gott veður, sigldum fram hjá heimsmeistarakeppni í siglingum, sáum höfrunga, fengum rosalega góðar rækjur og ljúffengt hvítvín um borð, vorum í fáránlegri nálægð við sæljón og stungum okkur til sunds úr 46 feta snekkju. Snilldar dagur með yndislegu fólki og engin sjóveiki.

Sam kom loksins í bæinn. Upptökum á myndinni lauk á miðvikudaginn svo Sam flaug heim til unnustunnar á fimmtudagsmorgun. Við fengum fimmtudagskvöldið með ógifta parinu þó margir hafi barist um félagsskap þeirra. Fórum á rosa flottan, hipp og kúl veitingastað hér í Fremantle. Á föstudaginn var svo öllum brúðkaupsgestum sem höfðu ferðast langa leið til að samgleðjast brúðhjónunum boðið til “out of towner” veislu hjá pabba Sam. Sá kauði ku vera arkitekt og býr hér í nágrenni við okkur í suður Fremantle. Húsið hans er upprunalega með þeim fyrstu í allri Vestur Ástralíu en hann gerði það allt upp fyrir ca. tveimur árum síðan og gerði það þokkalega vel. Húsið er BARA geðveikislega flott, á þremur hæðum með sundlaug og allt. Góður matur, skemmtilegt fólk og fallegt umhverfi í góðu veðri enn einu sinni.

ÞÁ ER KOMIÐ AÐ BRÚÐKAUPINU SJÁLFU!
Við höfum aldrei upplifað annað eins. Allur aðdragandi að þessu brúðkaupi og dagurinn sjálfur var stórkostleg upplifun. Ingrid er fallegast kona sem ég hef augum litið, hún geislaði af hamingju. Ingrid, brúðarmeyjarnar og mamma Ingridar komu hingað til okkar snemma á laugardagsmorgni þar sem húsið okkar er mjög rúmgott og hentar vel fyrir plássfrekar hárgreiðslu- og förðunardömur. Húsið var “the ladies house” á laugardaginn og ég elskaði það. Ég stóð mig náttúrulega mjög vel í hlutverkinu sem litla systirin og var að erindast allan daginn.

Brúðkaupið var svo heima hjá Luc, bróður Sam. Luc keypti vöruhús hér í Fremantle og breytti því í íbúðarhúsnæði. Garðurinn hans er BARA guðdómlegur, með alls konar trjám sem við Íslendingarnir eigum ekki að venjast. T.d. er hann með sítrónutré rétt við körfuboltavöllinn sinn. Ótrúlegt! Athöfnin var í garðinum og þvílíkt tilfinningaþrungið andrúmsloft! Brúðhjónin voru svo ánægð með hvort annað og þessa ákvörðun sína að þau ætluðu aldrei að geta sagt heitin sín því þau grétu bara af gleði. Systur Ingridar töluðu aðeins um ástina í athöfninni, vinkona þeirra samdi ljóð til þeirra og athöfnin endaði á því að við pabbi héldum ræðu. Pabbi hélt ræðu á íslensku og ég þýddi yfir á ensku við mikinn fögnuð allra. Eftir þennan tilfinningarússíbana hófst flottasta partý sem ég hef nokkru sinni farið í.

Búið var að breyta ,,bílskúrnum” hans Luc í fallegasta partýsal sem ég hef augum litið. Við vorum með í því að þrífa gólfin þegar kappinn keyrði bílunum, mótorhjólunum og fjórhjólinu út úr skúrnum og mér óaði ekki fyrir því að þetta yrði svona rosalega flott, þó ég hafi nú vitað að þetta yrði ákaflega smekklegt þar sem Ingrid og Sam áttu í hlut. Salurinn var eins og gefur að skilja bara stór geimur en það var búið að setja upp ofsalega rómantíska og fallega lýsingu, barinn var æðislega kúl og svo var hang put place í einu horninu. Þremur LANGborðum var komið fyrir í salnum sem myndaði mjög skemmtilega stemningu. Eftir skemmtilegar ræður, fallegan söng og yndislegan brúðardans voru allir í partýgírnum og kvöldið endaði á því að allir sátu á grasinu í fallega garðinum. BARA SNILLD.

Ingrid og Sam voru náttúrulega stjörnur dagsins og Ingrid var eins og klippt út úr kvikmynd frá 1940. Hún var ótrúlega falleg, kjólinn hennar var fullkominn og Sam leit náttúrulega líka mjög vel út en aðdáunarsvipurinn á honum þegar hann leit á nýju konuna sína var engu líkur.

Við hittum svo brúðhjónin og nokkra gesti úr brúðkaupinu í morgun á veitingahúsi þar sem allir höfðu tækifæri til að kveðja nýgifta partið sem lagði af stað í brúðkaupsferð til Taílands í dag. Kveðjustundirnar með Ingrid eru alltaf rosalega erfiðar, ég held að það sé vegna þess að ég veit aldrei hvað það er langt þangað til að ég sé þessa fallegu systur mína næst. Mörg tár féllu og faðmlögin voru sterk.

Nú eru bara tveir dagar eftir í Fremantle og þeir eru án Ingridar og Sam. Við ætlum að fara í siglingu á morgun, líklega fara á eyju sem heitir Rottnest. Ég vil endilega að Jón Björn minn komi þangað. Ég fór þangað fyrir 10 árum með Ingrid og þetta er BARA fallegur staður.

Jæja þetta er orðið ansi langt, enda frá mörgu að segja. Setjum inn eina færslu áður en við förum til Singapore en það verður á miðvikudaginn.

Takk fyrir mig og góða nótt
Hilma

Wednesday, November 22, 2006

Myndir úr gæsateiti




Mynd af gömlunni útskýra flóknar reglur krokketsins. Ég get sagt ykkur það að leikurinn gengur allur út á að eyðileggja fyrir andstæðingnum. Ekki gaman að hlusta á gamla konu segja manni að skemma leikinn fyrir móður sinni.















Mamma með snilldartakta í krokketinu.












Ingrid og Kath mamma hennar í góðum gír.












Liðið i stuði í lok kvöldsins, allir á leiðinni heim.

Takk fyrir mig og góða nótt
Hilma

Tuesday, November 21, 2006

Siðfágað gæsateiti

Halló góða fólk!

Ég vil byrja á því að tilkynna það að hann Tristan Marri minn er tveggja ára í dag 21. nóvember. Reyndar er kominn 22. nóvember hjá mér en þetta er allt gert út frá hentusemi. Eins og það virðist ótrúlega stutt síðan hann fæddist get ég einhvern veginn ekki munað til þess að við höfum verið án hans. Algjörlega ómissandi þessi drengur. Rúsínubolla! Til hamingju með afmælið frændi. Koss koss koss. ...Anna Alberts. fær líka afmæliskveðjur, 25 ára í dag!

Mér finnst svo ótrúlega vænt um allar kveðjurnar ykkar. Ekkert smá gott að vera í sambandi við ykkur öll á þennan hátt. Ég veit að myndin af mér með stóra bróður Koala björnsins var óborganleg. Jón Björn talaði mig inná að halda á dýrinu og láta taka mynd af mér. Nema hvað, þegar ég var nýkomin með dýrin í fangið sagði indælis dýragarðspilturinn: “Just open your legs a bit, it looks like it's going to poo!” YAAAK. En sem betur fer kúkaði aumingjans dýrið ekki á meðan ég hélt á því. Reyndar setti ég fæturna of langt í sundur þannig að 26 kílóa bangsinn hefði geta dottið beint á kúkarassinn sinn, en það gerðist sem betur fer ekki heldur.

En jæja... Gæsapartýið!! Ég vaknaði snemma til að fara með Ingrid minni í brúðarmeyjarmátun. Vinkona Ingridar er rosa hipp og kúl hönnuður hér í borg og er búin að hanna og sauma mjög flott dress á brúðarmeyjarnar hennar Ingridar. Eftir það fórum við stelpurnar heim til okkar að skoða brúðarkjólinn þar sem hann er geymdur hér á Belmont str. Mjög secret og misterious. Þið megið ekki segja neinum Ástrala frá því. Ingrid er stórfalleg í þessum kjól! Ég er búin að vara hana við því að hún muni fá myndir sendar eftir brúðkaupið af okkur Íslendingunum skiptast á að máta kjólinn. Ingrid getur bara ekki hætt að hlæja þegar hún ímyndar sér pabba í kjólnum. Það er víst algjör dauðasynd hér að karlmaður sjái kjólinn fyrir brúðkaupið þannig að pabbi og Jón Björn þykjast ekki einu sinni vita af því að kjólinn sé hér í húsinu.

Eftir kjólaævintýrið fór ég til mömmu hennar Ingridar og aðstoðaði við að búa til ávaxtapúns og samlokur fyrir allar gæsirnar. Mjög heimilislegt og kósý. Hún á svo indæla mömmu. En allavega... gæsapartýið sjálft byrjaði á því að 20 gullfallegar og vel klæddar konur hittust á krokketvelli hér í bæ. Þetta var algjört æði! Þegar við mættum þarna voru um 10 eldri borgarar að spila krokket. Þeim fannst við vera með heldur mikil læti inni á testofunni þeirra. Krokket á laugardagseftirmiðdegi er greinilega ritjúalt viðburður hjá þeim. Ein kvennanna lét okkur vita af því að kl. 15.30 myndi hún hringja bjöllu og þá ættum við að fara út af testofunni og út á völlinn og kollegar hennar myndu koma inn að fá sér te. Á slaginu kl. 15.30 tilkynnti hún yfir hópinn að nú væri hún að fara að hringja bjöllunni og svo... dingalingaling. Hahaha, þetta var svo snilldarlegt. Ætli kona verði svona á eldri árum. Hluti af mér er alveg til í það!

Þrjár eldri fágaðar konur kenndu okkur svo leikinn og við lékjum eins og við hefðum aldrei gert annað. Mamma var alveg stórfenglega góð. Hún verður eiginlega að kynna Íslendingum fyrir leiknum og hafa svona laugardagseftirmiðdaga fyrir sig og vel valda vini. Kannski er veðrið ekki alveg það besta á fróni fyrir slíkt en hún er svo mikill reddari að hún getur örugglega fundið út leið til að redda því.

Eftir krokketleikinn var teboð inni á testofu eldri borgaranna, alveg geggjaðislega æðislegt eins og Darri snillingur gæti orðað það. Unaðslegar veitingar þar á boðstólnum. Rosalega gott ávaxtapúns sem var mjög frískandi í hitanum og einstaklega ljúffengar samlokur. Eldgamaldags rúta sótti okkur svo á eldgamaldags krokketstaðinn og fór með okkur á nýmóðins hótel þar sem við fengum sérútbúna kokteila og gengum svo yfir á veitingastað þar sem við átum okkur pakk pakk saddar. En nú er þetta orðið svo langt hjá mér að ég nenni ekki meir.

Lykilatriðið er að dagurinn var yndislegur og kvöldið mjög fágað og skemmtilegt. Allir komu með gjöf til Ingridar sem minnti á hana eða skemmtilegar stundir með henni. Við mamma bjuggum til minningarkassa um Ísland og Ingrid fór bara að skæla þegar hún opnaði hann og rifjaði upp fallegu minningar af klakanum. Eftir vel lukkaðan dag, nokkra drykki og eitt tekíla staup var mér keyrt heim í leigubíl þá 100 m sem voru heim til mín fyrir miðnætti. Hugsið ykkur hvað þetta er ólíkt okkar heimahögum, þá meina ég varkárnina og tímasetningarnar. Ekki drykkina ,,,hehe.

Tíminn flýgur hér í Fremantle og við erum farin að panika yfir því að það sé aðeins vika til stefnu áður en við fljúgum til Singapore. Margt að gera og margt að sjá! Erum að fara í siglingu í fyrramálið með foreldrum hennar Louise (Sydey mágkona Ingridar). J.B. er ansi kvíðinn en ég mun passa upp á hann og eigendur skútunnar eru búnir að lofa sjóveikipillum. Vonum bara það besta.

Batteríið á myndavélinni minni dó svo ég er ekki búinn að setja myndirnar af gæsapartýinu inn í tölvuna. Þið fáið bara rondom myndir af okkur hafa það skemmtilegt í Ástrálíu.

Bestu kveðjur
Hilma

P.s. Klukkan er 1 um nótt og myndirnar eru svo lengi að hlaðast inn að ég nenni þessu ekki. Dafla Jón Björn í þetta í fyrramálið. Góða nótt allir.

Sunday, November 19, 2006

Á sjó...

Svo lengi sem elstu menn muna hafa verið miklir sægarpar í minni ætt, þá í föðurlegginn. Í reynd er ég skírður í höfuðið á bræðrunum Jóni, Birni og Ólafi sem létust allir fyrir aldur fram í sjóslysi. Einn þeirra mun hafa látist skömmu eftir að hann komst við illan leik til byggða. Þó fræknir garpar í minni ætt hafi sótt sjóinn af krafti þá virðist sjósóknin ekki vera mér í blóð borin. Þá fáu róðra sem ég fór í með föður mínum ældi ég eins og múkki í hverjum túr og á því varð engin undantekning í gær þegar við fórum í sjóstangveiði í steggjapartýinu hjá Sam. Allir úti á dekki að fiska nem aumingja Jón sem lá veikur fyrir og á köflum held ég að hluti af æðakerfinu hafi farið með nokkrum gusunum út úr mér. Þetta var ruuusalegt.

Fyrr í vikunni fórum við Hilma og Ingrid í ,,Wildlife Park” sem staðsettur er hér skammt utan borgarmarka Perth. Við fengum að klappa kengúrum og koalabjörnum, mjög sérstakt og gaman að komast í návígi við þessi dýr sem maður hefur aðeins séð á sjónvarpsskjánum.

Fyrir ykkur sem eruð orðin spennt eftir fréttum úr gæsapartýinu þá verður þær ekki að finna í þessari bloggfærslu. Læt hana Hilmu mína um það.

Þegar í land var komið úr steggjapartýinu náði ég loks sönsum að nýju og tóku þá allir hraustlega til drykkju sinnar eins og vera ber á svona kvöldum. Við grilluðum okkur fisk sem heitir Dhu-fish og var hann ekki ósvipaður á bragðið og skötuselur, sannkallað sælgæti. Fiskurinn var tæp 9 kíló og dugði hann okkur öllum en um 20 manns voru í steggjaveislunni.

Sam, verðandi eiginmaður Ingridar, á tvo bræður. Annar heitir Griffin og hinn Luc og þegar Griffin giftist var hann brennimerktur, dagsatt. Brennimerktur með upphafsstaf sínum og eiginkonu sinnar. Þegar vígalegur vinahópur Sam gekk út með rauðglóandi járnið á laugardagskvöld missti Sam andlitið. Stafirnir S og I voru á járninu og Luc og Griffin héldu dauðskelfdum bróður sínum í veiklulegum plaststól. Þeir báru járnið upp að Sam og var ekki annað að sjá en að líða myndi yfir strákinn, rétt áður en járnið snerti magann á Sam breyttu þeir um stefnu á járninu og bægðu því frá. Get ekki annað sagt en að Sam hafi verið mjög feginn. Þegar bræðurnir brennimerktu Griffinn þá var hann með umbúðir á sárinu í margar vikur. Góður hrekkur á Sam þarna en þegar Griffin var brennimerktur ku það hafa verið all ruuusalegt.

Ég ætla ekki fara mikið nánar út í það hvað fór fram í steggjapartýinu, það er ekki eitthvað sem maður á að vera að setja á prent. Þá ætla ég heldur ekki að vera að þrykkja inn myndum af því af augljósum ástæðum. Þegar öllu er á botninn hvolft var þetta bara vel heppnað steggjapartý en steggjapartý engu að síður. Allt mjög secret!

Sigurður veiðimaður og ég fórum með kunningjum okkar hérna í morgun inn í Perth og fylgdumst þar með Red Bull flugkeppninni þar sem flugvélar fljúga milli hindranna sem staðsettar eru á vatni. Mjög svalt og um 300 þúsund áhorfendur voru þarna í dag. Tilkomumikil sjón. Engin var þó aðdráttarlinsan og þetta því það besta sem ég get sýnt ykkur, svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir en hvað um það.

Þið bíðið bara spennt eftir gæsapartýbloggfærslunni hennar Hilmu.

Kveðja,
ÆluJón

Mynd 1: Hilma og Skippy
Mynd 2: Hilma fékk að halda á þessum stóra frænda koalabjarnarins, man ekki hvað dýrið heitir, en þetta voru hennar viðbrögð þegar starfsmaður í garðinum sagði okkur að dýrið þyrfti að gera nr. 2.
Mynd 3: Þessi fugl var í fullri reisn, áhugamenn um fróðleiksmola mega endilega commenta hérna og segja okkur hvað fuglinn heitir.
Mynd 4: Við Red Bull keppnina í dag.

Thursday, November 16, 2006

Ferðalag, morgunmatsstefnumót, greyið Sam og brunnin Jón

Strax eftir að við hentum inn síðasta bloggi var lagt af stað í ferðalag. Hefðum kannski átt að hafa þær upplýsingar með í færslunni þar sem við settum inn ítarlegar upplýsingar um hvernig væri hægt að ná í okkur. Mér skilst að fólk hafi haldið að við höfum horfið af yfirborði jarðar. Það má kannski segja að við höfum gert það. Við keyrðum að suðurhluta Vestur Ástralíu og þar er að finna himneskar strandir, ljúffenga vínsmökkunarstaði og stórfenglega dropasteinshella. Okkur leið náttúrulega eins og við værum stödd einhvers staðar allt annars staðar en á móður jörðu.

Ég er samt ekki að grínast með þetta, strandirnar hérna eru hvítar með tærasta sjó sem ég hef nokkru sinni séð. Við gistum í rosalega flottu húsi sem foreldrar Louise (gestgjafi okkar í Sydney og mágkona Ingridar) eiga. Húsið var BARA flott. Það var á þremur hæðum, með huge svölum þar sem hægt var að sitja og horfa út á hafið þar sem hvalir léku listir sínar.

Eins og þegar farið er í sumarbústaðarferðir á fróni var tekið með endalaust magn af mat og maginn stækkaði um þriðjung við það að keyra út fyrir borgarmörkin. Við lágum á beit allan tímann og elduðum okkur ljúffengar máltíðir hvað eftir annað. Á öðrum degi rúntuðum við um nágrennið og komum við á fjórum vínekrum. Þar fengum við að smakka rauðvín og hvítvín og Jón Björn keypti náttúrulega flösku á hverjum stað, fannst ekki hægt að vera að smakka vínið hjá aumingjans fólkinu án þess að kaupa neitt af þeim.

Við Johnny beibí fórum í ótrúlega hellaskoðun. Ég verð nú a viðurkenna að innilokunarkenndin mín bankaði aðeins upp en ég reyndi að bæla hana niður. Hellirinn heitir NgILGI, var s.s. nefndur af aboriginal mönnum. NgILGI er 38 metra djúpur og með stórkostlega dropasteina sem mynda skemmtileg mynstur og stundum skondnar fígúrur. Við setjum inn myndir af hellinum fyrir ykkur en Jón Björn Ólafsson tók náttúrulega endalaust af myndum þannig að við getum farið með ykkur í gegnum hellinn í myndaformi þegar við komum heim.

Í gær hittum við foreldra Sam í morgunmat. Mjög skemmtileg hefð hérna að eiga morgunmatsstefnumót við vini og vandamenn. Við erum búin að eiga nokkur slík en þá hittist fólk áður en amstur dagsins hefst, kannski eftir að það er búið að fá sér sundsprett í sjónum og fær sér morgunmat á einhverju ljúffengu kaffihúsi. Þessi stefnumót eru yfirleitt mjög snemma eða klukkan átta hálf níu, kannski ekki alveg vænlegt fyrir morgunfúlan Íslendinginn.

En talandi um Sam greyið. Hann er að vinna í Melbourne eins og mörg ykkar vitið og það má þakka fyrir að hann komist í brúðkaupið sitt. Hann er að leika í Hollywood mynd og tökum á myndinni átti að ljúka í þessari viku en hann rétt kemst heim á laugardaginn til að mæta í steggjapartýið sitt og fer svo aftur til Melbourne á mánudagsmorguninn. Líklegast kemur kappinn ekki aftur á vesturströndina fyrr en daginn fyrir brúðkaupið. Frekar mikil spæling! Greyið Sam missir af öllum undirbúningnum en Ingrid mín lifir á því að nýgifta parið fer í brúðkaupsferð til Taílands daginn eftir brúðkaupið og geta þá notið hveitibrauðsdaganna ein og óskipt.

Í gær fóru pabbi og Jón Björn að veiða og J.B. eins og hann er oft kallaður hér brann allsvakalega. Sólinn er náttúrulega beint fyrir ofan höfuðið á manni hér yfir miðjan daginn og er því ótrúlega sterk. Drengurinn makaði bara á sig vörn um morguninn og hélt það myndi duga en bakið er rautt sem vítislogi. Ég hugsa vel um hann og sé til þess að honum líði bærilega í kvölum sínum. Í dag ætlum við að fara að skoða kengúrur og koalabirni.

Vúbbdírú, heyrumst síðar.
Hilma

Sunday, November 12, 2006

Lifid i Perth


Við búum í tæplega 250 fm húsi í Fremantle á horni Lefroy og Belmont Street. Fremantle er suðvestur af Perth á vesturströnd Ástralíu og hér í borg er húsnæði hvað dýrast í Ástralíu. Eitt stykki 70 fm íbúð við ströndina hérna slagar upp í 60 milljónir króna. Það er slatti af kókómjólk. Hér á efstu myndinni sést hvar Sigurður nokkur Þórsson bendir í átt að húsinu okkar fína. Svefnherbergin eru á annarri hæð og á fyrstu hæð eru tvær stofur og heljarinnar eldhús, um 5 mínútna hjólatúr er niður á strönd og já... ég er strax búinn að brenna mig á gula kvikindinu, rauður eins og rósirnar.

Ingrid reddaði okkur fjórum hjólum svo við erum nokkuð snögg allra ferða okkar. Við erum örugglega búin að skoða mest allan bæinn sem er einn sá elsti í Ástralíu. Fremantle var einn fyrsti staðurinn sem Englendingar komu á, slátruðu innfæddum og báru fyrir sig heimsvaldastefnunni í nafni drottningar. Einstaka ,,Aboriginal” sést þó bregða fyrir en það eru innfæddir kallaðir hér í landi. Því miður eru þeir fremur illa á sig komnir og sjást jafnan á vergangi.

Veðrið hjá okkur hefur verið frábært, sól og hiti en einstaka sinnum hafa fallið myndarlegir regndropar. Mæðgurnar Hilma og Hanna Stína eru búnar að versla heil ósköp og við Sigurður erum við það að fá sinaskeiðabólgu af pokaburðinum.

Í gær fórum við Ingrid og Hilma á ,,The big Hoo haa” sem er spunaverk í líkingu við ,,Who´s line is it anyway.” Þessi sýning er um hverja helgi í Perth og Sam, verðandi eiginmaður Ingridar, tekur oft þátt í þessum sýningum sem eru mjög vinsælar hér í Perth.

Annars er þetta það helsta sem á daga okkar hefur drifið:
- göptum af ánægju yfir húsinu okkar í Fremantle
- fórum á ströndina og ég gerði stórt ICELAND í sandinn rétt svona til að hlandmerkja pleisið
- hittum Sínu og Óðinn son hennar sem búa í Selfossfjarlægð frá Fremantle en Óðinn varð fjórum sinnum í röð Íslandsmeistari í tvíliðaleik í tennis með bróður sínum Einari, smá fróðleiksmoli.
- Fórum á Fremantle markaðinn á laugardag þar sem var verslað út í eitt, fullt af jólagjöfum úr kengúruskinni
- Fórum í mat hjá Kath og Dave, foreldrum Ingrindar, Dave er fósturpabbi hennar og algjör töffari með skegg og allar græjur, og hann er frá Wales. Fyrsti veilsverjinn sem ég þekki.
- Siggi fer alla morgna út að skokka en hann grennist ekki neitt svo við vitum í raun hvert hann er alltaf að fara.

Hilma skrifar:
- Pabbi gaf Johnny golfsett í pennaformi til þar sem Jón Björn hefur dreymt um að eignast golfsett í áratug.
- Ég keypti mér tiger leggings og Jón Björn er sjúkur í mig í þeim.
- Við erum komin með 3 áströlsk símanúmer!!!
o Heima: 0061894332046
o Hilma gsm: 006180405726335
o Siggi gsm: 006180405726354
- Við erum 8 klst á undan ykkur. Mín regla er sú að ég geti hringt til hennar Ingridar minnar frá fróni frá því að ég vakna og fram að því að klukkan slær 16 í eftirmiðdag. En við myndum glöð vakna við símtal frá ykkur af því að við elskum ykkur öll (ég ætla rétt að vona að það séu bara vinir og ættingjar að lesa þetta).

J.B. kemur sterkur inn aftur:
Jæja elskurnar okkar, það var ekki fleira í bili en við þökkum kærlega fyrir öll skemmtilegu orðin í þessu einfalda og aðgengilega commentakerfi okkar : )

Kveðja,

Jón Björn, Hilma, Siggi og Stína

Monday, November 06, 2006

Blue Mountains

Þá er helgin að baki hjá okkur og á morgun, þriðjudag, fljúgum við frá Sydney til Perth á vesturströnd Ástralíu en flugið mun taka um 5 tíma. Þetta er búið að vera ánægjulegt hjá okkur í Sydney en við höfum ekki farið varhluta af vatnselgnum. Það rigndi alla helgina svo við héldum okkur að mestu leyti innandyra. Á sunnudag fórum við reyndar í fínan bíltúr upp í Bláfjöll eða Blue Mountains eins og þau kallast víst hér í landi. Fallegur staður og nokkuð frábrugðinn því sem maður á að venjast heima á Íslandi en í þessum Bláfjöllum var allt skógi vaxið.

Síðastliðið föstudagskvöld fórum við út að borða á veitingastað sem heitir Café Sydney og er staðsett mitt á milli brúarinnar frægu og Óperhússins sem vart þarf að kynna til leiks. (Fyrir áhugamenn um sögumola þá var það danskur arkitekt sem hannaði óperuhúsið fræga eftir að hans tillaga var valinn úr hópi innsendra hugmynda en yfirvöld í Sydney höfðu efnt til hönnunarsamkeppni í kringum óperuhúsið. Þar hafið þið það : ) En ef við vindum okkur aftur að matsölustaðnum þá var útsýnið stórbrotið og staðurinn ekki af verri endanum, gúrrme kræsingar á hverjum disk og rautt með því. Ekki slæmt.

Ég og Hilma fórum í dag að skoða okkur um í University of Sydney en það er um 50 þúsund manna skóli og leist okkur bara ansi vel á dýrið og getum vel hugsað okkur að fara þangað í masters nám. Þó er ekkert ákveðið svo mamma þú getur alveg haldið ró þinni hehe.

Ingrid, stóra systir hennar Hilmu, tekur á móti okkur í Perth og þá getur verið að við förum beina leið til Margaret River sem er sunnan við Perth og dveljum þar í sumarhúsi. Það þýðir að eitthvert hlé verði á bloggduglegheitunum en þið bara haldið áfram að hanga á hverju einasta orði sem við skrifum : )

Næsta blogg kemur frá Perth.

Eins og mín heittelskaða myndi segja... koss, knús og kram frá Ástralíu and put another schrimp on the barby.

Jón Björn og Hilma

Mynd 1: Frá vinstri, Sigurður Þórsson eðaltöffari og laxveiðimaður með meiru, Shane Hartwig, bróðir Ingridar og gull af manni í alla staði og þennan lengst til hægri þarf vart að kynna enda þvílíkt sjarmatröll og lúxusbeibí þarna á ferð : )

Mynd 2: Hilma kroppur við óperhúsið á mánudag.

Mynd 3: Kletturinn ,,Þrjár systur” í áströlsku Bláfjöllunum

Friday, November 03, 2006

Lífið í Sydney

Sydney er æði. Ekki samt þessi stórborg sem ég hélt að hún væri. Hún er ekki eins cosmopolitan og aðrar stórborgir. Hafnarlífið hér er æðislegt. Við erum búin að ferðast í ferjum milli staða, undir frægu brúnna og framhjá Óperu húsinu. Rosalega er skrítið að sjá byggingu eins og óperuhúsið live eftir að hafa séð það milljón sinnum á myndum.

Við létum sólina leika um okkur í gær og í fyrradag en gula kvikindið faldi sig í dag og það féllu meira að segja nokkrir rigningadropar á okkur. Spáir ekkert svo góðu fram yfir helgi en hitinn er yfir 15°c þannig að ég ætti ekkert að vera að kvarta. Jón Björn og pabbi fóru nú samt og syntu í sjónum kl. 7 í morgun. Þeir gátu ekki verið minni menn þegar Shane bauð víkingunum í kalda sjóferð.

Shane & Louise eru bara yndisleg og gætum við ekki hugsað okkur betri gestgjafa. Ekki að spyrja að því þegar fólk úr fjölskyldunni hennar Ingridar er annars vegar. Við erum að fara út að borða í kvöld og ætlum jafnvel að fara aðeins á tjúttið. Verðum að kíkja á næturlífið í Sydney áður en við höldum á vesturströndina.

Þangað til næst góða fólk,

Hilma og Jón Björn

Wednesday, November 01, 2006

2 myndir

Herna koma tvaer myndir ur ferdalaginu, su fyrri er af Hilmu tar sem hun er ad monta sig af tvi ad eiga tetta gellutimarit og svo tottist hun eitthvad vera ad lesa um Astraliu. Held hun hafi ekki lesid staf i tvi.

A nedri myndinni eru eg og Siggi med allan farangurinn a leid i gegnum tollinn. Teir gegnumlysa allt herna down under. Nokkud timafrekt, ser i lagi tegar madur kemur fra Islandi og er vanur tvi ad kinka kolli a tollarana tvi madur tekkir ta flesta.

Meira sidar...